Opnun byggir á tölum ekki dögum

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs.
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs. AFP

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, kynnti í dag áætlun stjórnvalda um afléttingu sóttvarnareglna. Það verður gert í fjórum þrepum og líða þrjár vikur á milli þrepa. Hún sagði opnun byggja á tölum, ekki dagsetningum, þegar hún var spurð hvenær Norðmenn gætu átt von á því að öllum sóttvarnareglum verði aflétt.

Alls hafa rúmlega 100 þúsund Norðmenn smitast af Covid-19 frá því faraldurinn braust út fyrir rúmu ári. 683 hafa látist en Norðmenn eru 5,4 milljónir talsins. 

Solberg kynnti aðgerðirnar á norska Stórþinginu í morgun og byggja þær á stöðu faraldursins hverju sinni, getu heilbrigðiskerfisins og stöðu bólusetninga. Norðmenn hertu reglur skömmu fyrir páska vegna fjölgunar nýrra smita en þau eru flest af afbrigði sem fyrst greindist í Bretlandi. 

Tímabundið bann var lagt við sölu á áfengi á börum og veitingastöðum. Líkamsræktarstöðvar eru lokaðar og sundlaugar. Eins var fólk hvatt til þess að draga mjög úr samskiptum og reglur varðandi skimunarsóttkví hertar.

Á næstu dögum mun ríkisstjórnin ákveða hvort þær hertu reglur sem kynntar voru 25. mars verði afturkallaðar og að sögn Solberg yrði það fyrsta skrefið af fjórum í átt að eðlilegu lífi.

Um það bil þrjár vikur þurfa að líða á milli skrefa til að sjá hver áhrifin verða og að afléttingu sé auðveldlega hægt að afturkalla. „Ég skil vel að margir myndu vilja sjá áætlun með staðfestum dagsetningum,“ segir Solberg. Hún segir að það sé ekki hægt vegna þess hversu mikil óvissan er. Svo sem stökkbreytingar og bólusetningar. Líkt og Danir hafa Norðmenn ekki bólusett með bóluefni AstraZeneca í talsverðan tíma en landið varð eitt hið fyrsta í Evrópu til að gera hlé á þeim vegna blóðtappa meðal fólks sem var bólusett með bóluefninu frá AztraZeneca. 

Þrátt fyrir að gefa ekki út nákvæma dagsetningu á Solberg von á því að þessi fjögur skref afléttinga verði orðin að veruleika í lok júní. 

Meðal þess sem skrefin fela í sér:

1. skref verður væntanlega stigið í næstu viku

  • Þá má taka á móti fimm gestum á heimili
  • Veitingastaðir mega taka á móti gestum til klukkan 22
  • Hægt er að halda viðburði sé tryggt að gestirnir séu allir úr sama sveitarfélagi
  • Eins metra reglan verður tekin upp að nýju
  • Allt að 100 manns mega koma saman innandyra, svo sem á menningar- og íþróttaviðburðum. Skilyrði er að allir séu í merktum sætum. 
  • Allt að 200 mega koma saman utandyra. 

2. skref sem væntanlega tekur gildi seinni hluta maímánaðar

  • Nemendur mega mæta til kennslu í háskólum, menntaskólum og fagskólum.
  • Taka má á móti 5-10 gestum á heimili
  • Taka má á móti allt að 20 manns á stöðum sem teknir eru á leigu fyrir einkasamkvæmi.
  • Veitingastaðir mega vera opnir til miðnættis og ekki gerð krafa um að fólk sé í mat. 
  • Öll skipulögð íþrótta- og tómstundastarfsemi barna verður heimil. Innandyra sé miðað við hámarksfjölda – það er 100 manns. 
  • Fyrir fullorðna má bæði æfa inni og úti í allt að 20 manna hópum. Um miðjan apríl er stefnt að áætlun um iðkun knattspyrnu.
  • Heimilt að ferðast innanlands.
  • Mælt er gegn ferðalögum erlendis nema brýna nauðsyn beri til. Allir þurfa að framvísa vottorðum og fara í skimun við komuna til landsins.
  • Afar og ömmur mega koma í heimsókn til Noregs sem og kærastar og kærustur. Eins verður fjölskyldum gert auðveldara að heimsækja ættingja í öðrum EES-ríkjum. 

Hér er hægt að lesa nánar um framhaldið, það er skref 3 og 4.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert