Dauðsföllin aldrei fleiri í Póllandi

AFP

Alls létust 954 af völdum Covid-19 í Póllandi síðasta sólarhringinn og segir talsmaður heilbrigðisráðuneytisins fjöldann vera sorglega mikinn. Enda hafi aldrei látist jafn margir þar í landi á einum sólarhring úr veirunni.

Yfir 75% allra sjúkrarúma landsins eru í notkun þar á meðal þau þar sem hægt er að tengja fólk við súrefnisvélar.

Nýjum smitum hefur einnig fjölgað en síðasta sólarhringinn greindust 27.887 ný smit. Að hluta er það rakið til páskanna og tafa við greiningar á sýnum. 

Yfir 56 þúsund hafa látist úr Covid-19 í Póllandi en þar búa 38 milljónir. Ástandið er einna verst í námahéraðinu Silesia í suðurhluta landsins. Þar hefur þurft að flytja sjúklinga til annarra svæða vegna þess að öll sjúkrarúm eru í notkun. 

Allir skólar eru lokaðir í Póllandi og einnig liggur íþrótta- og menningarstarfsemi niðri. Hið sama á við um verslanir sem ekki selja nauðsynjavöru. Stefnt er að opnun 18. apríl.

mbl.is