Heimila AstraZeneca fyrir 60+

Lyfjastofnun Evrópu segir heildarávinning af notkun bóluefnis AstraZeneca meiri en …
Lyfjastofnun Evrópu segir heildarávinning af notkun bóluefnis AstraZeneca meiri en áhættuna sem henni fylgi. AFP

Spænsk yfirvöld hafa ákveðið að bólusetja fólk yfir sextugu með bóluefni AstraZeneca eftir að Lyfjastofnun Evrópu skráði blóðtappa sem sjaldgæfa en alvarlega aukaverkun bóluefnisins í gær.

Heilbrigðisráðherra Spánar, Caroline Darias, greindi frá þessu á blaðamannafundi og bætist Spánn þar með í hóp fleiri ríkja sem hafa tekið svipaða ákvörðun.

Á Íslandi eru 70 ára og eldri bólusettir með AstraZeneca en Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi á þriðjudag að hann ætti ekki von á öðru en farið verði að fikra sig hægt niður í 65+ þegar búið yrði að bólu­setja 70 ára og eldri með bólu­efninu.

Í dag verður bólusetning í Laugardalshöll í boði fyrir alla fædda 1951 og fyrr. Bólusett verður með bóluefni AstraZeneca.

Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) um eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja (PRAC) segir að um sé að ræða óvenjulega blóðtappa þar sem magn blóðflagna er einnig minnkað (blóðflagnafæð). Við matið var horft til allra tiltækra gagna, þ.m.t. mats óháðs sérfræðihóps sem fenginn var til að gefa álit á málinu.

Flest tilfellin sem tilkynnt hafa verið, komu fram hjá konum undir sextugu innan tveggja vikna frá bólusetningu. Engir sérstakir áhættuþættir hafa fundist til þessa.

Lyfjastofnun Íslands mælist til þess að heilbrigðisstarfsmenn og þeir, sem fengið hafa bólusetningu með umræddu bóluefni, séu vakandi fyrir tilteknum einkennum slíkrar aukaverkunar í tvær vikur eftir bólusetningu.

Þeir sem fengið hafa bólusetningu með bóluefni AstraZeneca ættu að leita læknisaðstoðar tafarlaust ef þeir fá eftirfarandi einkenni:

  • mæði
  • brjóstverk
  • þrota í fæti
  • viðvarandi kviðverk
  • einkenni frá taugakerfi, eins og verulegan eða viðvarandi höfuðverk eða þokusjón
  • örlitla marbletti/blæðingar undir húð á öðrum stöðum en þar sem bólusett var

Bóluefni AstraZeneca er eitt fjögurra bóluefna sem samþykkt eru til varnar Covid-19 hérlendis. Rannsóknir sýna að það veitir vörn gegn sjúkdómnum og fækkar sjúkrahúsinnlögnum og dauðsföllum af hans völdum. Tilfelli blóðtappa með minnkuðu magni blóðflagna sem tilkynnt hafa verið eru mjög fá og því telur EMA heildarávinning af notkun bóluefnisins meiri en áhættuna sem henni fylgir. Það er hins vegar undir heilbrigðisyfirvöldum í hverju landi komið að taka afstöðu til þessara nýju upplýsinga og meta þær, að því er segir á vef Lyfjastofnunar Íslands.

Darias segir að stjórnvöld á Spáni hafi tekið þessa ákvörðun í kjölfar tilkynningar EMA í gær. Alls hafa 3,2 milljónir smitast af Covid-19 á Spáni og yfir 76 þúsund þeirra hafa látist. Búið er að fullbólusetja 6,2% þjóðarinnar en alls hafa verið gefnar 9,3 milljónir skammta þar í landi. Íbúar Spánar eru 47 milljónir talsins. 

Ítölsk yfirvöld hafa komist að sömu niðurstöðu og spænsk og breytt sínum viðmiðum í 60+. Þar giltu fyrst reglur um að bólusetja með AstraZeneca fólk yngra en 65 ára en var breytt 8. mars í að bólusetja mætti alla aldurshópa með bóluefninu. Nú aftur á móti má aðeins bólusetja þá sem eru 60 ára og eldri með því. 

Bæði norsk og dönsk yfirvöld stöðvuðu notkun bóluefnisins í síðasta mánuði og hafa ekki tekið það í notkun að nýju. Nýrra ákvarðana þar um er að vænta um miðjan apríl.

mbl.is