Reknir fyrir ósæmilega hegðun

Oxfam eru ein stærstu mannúðarsamtök heims.
Oxfam eru ein stærstu mannúðarsamtök heims. AFP

Breska ríkisstjórnin hefur hætt stuðningi við mannúðarsamtökin Oxfam eftir að greint var frá því að samtökin hefðu rekið tvo starfsmenn í Austur-Kongó fyrir ósæmilega hegðun, bæði kynferðislega og einelti. 

Öll samtök sem óska eftir stuðningi frá breskum yfirvöldum verða að standast kröfur um öryggismál og að fólk sem starfar fyrir samtökin upplifi sig öruggt segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Miðað við nýjustu fregnir af stöðu mála hjá Oxfam vakna spurningar um getu samtakanna til að uppfylla þessi skilyrði. Því mun Oxfam ekki fá fjárhagsstuðning frá ríkinu fyrr en þessi mál eru leyst.

Oxfam starfar í 67 löndum en greint var frá brottvikningunni á föstudag. Er hún hluti af víðtækri innri rannsókn sem hófst í nóvember. Samtökin segja að starfsmönnunum hafi verið vikið frá störfum vegna ásakana um misnotkun valds, þar á meðal einelti og ósæmilega hegðun. Þetta hafi verið tilkynnt til utanríkisráðuneytisins og nefndar sem fer með málefni mannúðarsamtaka. 

Breska dagblaðið Times greindi frá því á föstudag að starfsmenn hjá Oxfam hafi bent á misgjörðir meðal starfsmanna Oxfam í Austur-Kongó undanfarin ár eða allt aftur til ársins 2015.

Oxfam-samtökin voru harðlega gagnrýnd árið 2018 fyrir það hvernig þau tóku á starfsfólki samtakanna á Haítí sem viðurkenndi að hafa nýtt sér vændisþjónustu í kjölfar jarðskjálftanna 2010.

Oxfam hefur fengið um 30 milljónir punda í ríkisstyrki á hverju ári. Í fyrra greindu samtökin frá því að þau ætluðu að loka 18 skrifstofum og segja upp 1.500 starfsmönnum vegna minnkandi stuðnings í kjölfar Covid-19.

mbl.is