Taki nokkra mánuði að hefta útbreiðslu veirunnar

Taílenskir heilbrigðisstarfsmenn að störfum.
Taílenskir heilbrigðisstarfsmenn að störfum. AFP

Kórónuveirusmit eru að nýju farin að breiðast út um Bangkok, höfuðborg Taílands, og gæti tekið tvo mánuði að hefta útbreiðsluna, að sögn heilbrigðisyfirvalda. Þar tekst fólk nú á við meira smitandi afbrigði veirunnar en það afbrigði sem fyrst kom fram í Wuhan í Kína. 

Yfirvöld í Taílandi gera ráð fyrir því að það taki þau einn til tvo mánuði að hefta útbreiðsluna utan höfuðborgarinnar en innan hennar gæti það tekið lengri tíma. 

Fréttastofa Reuters greinir frá þessu.

405 ný kórónuveirusmit greindust í Taílandi í dag. Smitið hefur breiðst til 20 héraða í grennd við Bangkok. Smitin hafa helst komið upp í tengslum við næturlífið í borginni og hafa yfirvöld af þeim sökum gripið til aðgerða sem beinast að því en krám og börum verður lokað í tvær vikur.

mbl.is