Eftirlýstur maður handtekinn á Íslandi

Maðurinn var handtekinn hér á landi um páskana.
Maðurinn var handtekinn hér á landi um páskana. mbl.is/Árni Sæberg

Karlmaður var handtekinn á Íslandi um páskana sem hafði verið eftirlýstur frá því í desember í fyrra vegna líkamsárásar og mannráns í Bergen í Noregi árið 2015.

Til stóð að flytja hann til Bergen frá Íslandi í dag, að því er NRK greinir frá.

Tveir pólskir menn voru handteknir í fyrra grunaðir um að hafa ráðist á og rænt auðjöfrinum og listaverkasalanum Reidar Osen árið 2015 eftir að ný sönnunargögn komu fram í málinu. Karlmaðurinn sem var handtekinn hér á landi er bróðir annars þeirra.

Það var ekki fyrr en árið 2019 sem lögreglunni varð ágengt í málinu eftir að manni að nafni Petter Slengesol var rænt það ár.

Réttarhöld síðasta haust

Réttað var yfir Pólverjunum tveimur síðasta haust og var annar þeirra fundinn sekur um mannrán en hinn var sýknaður.

Reidar Osen var á leiðinni í bíl sinn í desember 2015 í miðborg Bergen þegar ráðist var á hann. Mennirnir stungu byssu upp í munn hans þannig að hann kjálkabrotnaði og óku með hann í burtu.

Maðurinn sem var handtekinn hér á landi hafði á sínum tíma verið handtekinn í Noregi vegna málsins en lögreglan ákvað að leggja ekki fram ákæru vegna þess að sönnunargögnin voru ekki næg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert