Macron leggur niður eigin háskóla

Ecole Nationale d'Administration í Strassborg þykir táknmynd elítisma í Frakklandi.
Ecole Nationale d'Administration í Strassborg þykir táknmynd elítisma í Frakklandi. AFP

Emmanuel Macron Frakklandsforseti tilkynnti í gær að hann hygðist leggja niður hinn virta háskóla École nationale d'administration (ENA). Skólinn, sem er í Strassborg, var stofnaður eftir seinni heimsstyrjöld af Charles de Gaulle forseta og sérhæfir hann sig í opinberri stjórnsýslu.

Macron sjálfur er fyrrverandi nemandi við skólann, rétt eins og þrír forverar hans í embætti forseta. Skólinn hefur orðið að nokkurs konar táknmynd elítisma í Frakklandi, en innganga í skólann er sögð svo gott sem tryggja álitleg störf innan franska stjórnkerfisins og verið talin vísasta leið til framgöngu í stjórnmálum.

Macron, sem nam við skólann 2002-2004, hefur greint frá því að skólinn verði lagður niður og nýrri menntastofnun fyrir opinbera starfsmenn komið á fót í staðinn. Sú stofnun skyldi leggja meiri áherslu á fjölbreytileika.

Forsetinn lýsir þessu sem „grundvallarbreytingu“. Hann hefur áður gagnrýnt skólann fyrir að taka við færri nemendum úr verkastétt en hann gerði fyrir nokkrum áratugum, og ekki voru þeir margir fyrir. Sagði hann að félagslegur hreyfanleiki væri minni en fyrir 50 árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert