Skotárás í skugga faraldurs

Einn lést og nokkrir særðust í skotárás í verksmiðju í Texas í gær. Árásin var gerð skömmu eftir að Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, sagði byssuofbeldi farsótt sem taka verði á.

Árásarmaðurinn, Larry Bollin, er 27 ára gamall, og hefur verið ákærður fyrir morð, samkvæmt færslu lögreglunnar í bænum Bryan á Twitter.

Einhverjir þeirra særðu eru í lífshættu og að sögn lögreglu í bænum skaut Bollin meðal annars einn lögreglumann. 

Bollin starfaði í innréttingaverksmiðjunni þar sem árásin var gerð að sögn lögreglustjórans í Bryan, Eric Buske. Hann segir að tilkynnt hafi verið um árásina klukkan 14:30 að staðartíma og þegar lögregla kom á vettvang var einn látinn á vettvangi. Fjórir voru fluttir á sjúkrahús alvarlega særðir. 

Af vettvangi glæpsins í gær.
Af vettvangi glæpsins í gær. AFP

Alls særðust sjö í árásinni en þar af er einn með lítils háttar áverka og annar sem þurfti læknisaðstoð vegna afleiðinga árásarinnar á hann. Það er ekki vegna skotáverka. Lögreglumaðurinn er alvarlega særður en ástand hans er stöðugt. 

Ekki er langt síðan svipaðar árásir voru gerðar í Colorado, Georgíu og Kaliforníu. Tæplega 40 þúsund manns deyja á hverju ári í Bandaríkjunum af völdum skotáverka. Yfir helmingur þeirra í sjálfsvígum.  

Biden tilkynnti í gær um aðgerðir í sex liðum til að stemma stigu við byssuofbeldi í landinu. Repúblikanar hafa þegar harðlega gagnrýnt aðgerðirnar og segja þær brot á stjórnarskrárbundnum rétti fólks.

Larry Bollin er 27 ára gamall en hann hefur verið …
Larry Bollin er 27 ára gamall en hann hefur verið ákærður fyrir morð. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert