Kyrktur og rændur amfetamíni

Dan Eivind Lid var einn innstu koppa í búri SIAN-samtakanna …
Dan Eivind Lid var einn innstu koppa í búri SIAN-samtakanna sem berjast gegn því sem þau kalla íslam-væðingu Noregs. Tvívegis kom til harðra átaka á samkomum samtakanna í fyrra og beitti lögregla táragasi í miðbæ Óslóar 29. ágúst þegar viðstaddir réðust að brynvörðum lögreglubifreiðum og grýttu þær meðal annars með húsgögnum veitingahúsa í nágrenninu. Ljósmynd/Úr einkasafni

Á mánudaginn hefjast réttarhöld yfir þremur mönnum í Héraðsdómi Kristiansand í Suður-Noregi í máli Dan Eivind Lid, sem kyrktur var til bana á heimili sínu í Suldalen þar í bænum 3. október í fyrra áður en árásarmennirnir hurfu á brott með óþekkt magn af amfetamíni, sem Lid geymdi á heimili sínu, haglabyssu hans, fartölvu og síma.

Voru þremenningarnir handteknir hálfum mánuði eftir að nágranni Lid kom að honum látnum í íbúðinni, en við rannsókn málsins hafði lögregla meðal annars leitað til eigenda Tesla-bifreiða í hverfinu, sem búnar eru myndavélum í bak og fyrir, í von um að sjálfvirkur búnaður bifreiðanna hefði gert upptöku af mannaferðum aðfaranótt eða morgun 3. október. Greindi mbl.is frá þessu á sínum tíma.

Lid var áberandi félagi hinna umdeildu samtaka SIAN (Stop islamiseringen av Norge, Stöðvum íslam-væðingu Noregs) sem skömmu fyrir víg hans höfðu staðið fyrir útisamkomum í Bergen og Ósló þar sem í báðum tilfellum kom til snarpra átaka lögreglu og fólks sem dreif að til að mótmæla talsmönnum SIAN. Á samkomunni í Ósló 29. ágúst beitti lögregla CS-gasi, táragasi, þegar allt ætlaði um koll að keyra eftir að Fanny Bråten, ræðumaður sam­tak­anna, reif blaðsíður úr Kór­an­in­um og hrækti á þær.

Var rannsóknin á drápi Lid þegar tengd við samkomurnar, sem þá voru nýafstaðnar, en nú telur lögregla að árásin á hann hafi fremur tengst umsvifum hans í fíkniefnaheiminum. Hefur norska ríkisútvarpið NRK það eftir ónafngreindum heimildarmönnum að Lid hafi verið stórtækur sölumaður fíkniefna og jafnan haft reiðufé og fíkniefni á heimili sínu. Hefur hann hlotið dóma fyrir vörslur fíkniefna og skotvopna auk hótana og skemmdarverka.

Tveir mannanna þriggja, 46 og 55 ára, eru ákærðir fyrir manndráp, en sá þriðji, 36 ára, fyrir hlutdeild í ráni. Sat hann samkvæmt ákæru í bifreið fyrir utan á meðan kumpánar hans fóru inn til Lid og veittust að honum. Allir þrír hafa komið við sögu lögreglu áður í tengslum við fíkniefnamál.

Verknaðurinn vandlega skipulagður

Samkvæmt ákæru lögðu þremenningarnir á ráðin um að ræna Lid. „Um gróft rán er að ræða þar sem alvarlegu ofbeldi var beitt og verknaðurinn vandlega skipulagður,“ segir í ákæru.

Torleiv Drangsland, verjandi elsta mannsins, sem ákærður er fyrir að hafa kyrkt Lid, krefst þess að aðalmeðferð málsins verði frestað. „Ég er ekki einu sinni búinn að fá upplýsingar um öll sönnunargögn og við höfum ekkert svigrúm til að framkvæma okkar eigin athuganir,“ sagði Drangsland við NRK í gær.

Tvemenningarnir, sem þyngstum sökum eru bornir í málinu, neita báðir sök, sá eldri neitar alfarið að hafa verið á vettvangi, en hinn neitar að hafa átt nokkurn hlut að máli við víg Lid.

NRK

VG

TV2

Nettavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert