Lars Løkke stofnar nýjan flokk

Lars Løkke Rasmussen, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur.
Lars Løkke Rasmussen, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur. AFP

Lars Løkke Rasmussen, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur, hefur ákveðið að stofna nýjan stjórnmálaflokk. Rasmussen sagði skilið við gamla flokk sinn, hægriflokkinn Venstre, á nýársdag og hefur síðan þá setið á þingi utan þingflokks.

Hann tilkynnir ákvörðun sína í innsendri grein í sunnudagsútgáfu danska blaðið BT. Í greininni rekur hann þau mál sem brenna á honum og hafa verið til umræðu í þjóðmálafélagi sem hann stofnaði í upphafi árs, Det Politiske Mødested, en um 15.000 manns hafa skráð sig í félagið.

„Ég hef verið í pólitík í mörg ár. Kannski er það bara ég sem hef sofið í tímum, en ég man ekki eftir því að svo margar ólíkar manneskjur, sem þó deila sömu grunngildum, hafi hist til að finna lausnir,“ segir Rasmussen og vísar til fjarfunda sem félagið hefur staðið fyrir. Sjálfur hefur Rasmussen verið í Færeyjum síðustu daga en kona hans, Sólrún, er þaðan.

Staðsetur sig í miðju stjórnmálanna

Í greininni boðar Rasmussen að hinn nýi flokkur muni staðsetja sig á miðju danskra stjórnmála; nokkur tíðindi enda hafa Danir jafnan átt að venjast því að tvær blokkir bítist um völdin og getað gengið að því vísu að atkvæði greitt tilteknum flokki sé atkvæði greitt því að sú blokk sem hann tilheyrir fari með völdin á næsta kjörtímabili.

Rasmussen segir bláu blokkina, hægriblokkina, plagaða af ímyndarstjórnmálum og þá rauðu, vinstriblokkina, hafa úreltar hugmyndir um einstaklingsframtakið og hlutverk ríkisins. Hinn nýi flokkur muni einsetja sér að vera skynsamur og kreddulaus.

Flokkurinn muni beita sér fyrir lækkun skatta í atvinnulífinu en þrátt fyrir það sé svigrúm til að gera betur við þá sem höllustum fæti standa í samfélaginu.

Vill draga úr SU

Sem dæmi um þarfar breytingar, sem aðrir flokkar þori ekki að hrinda í framkvæmd, nefnir Rasmussen breytingar á námsstyrkjakerfinu, SU. Háskólanemar í Danmörku fá greiddar um 6.300 danskar krónur (125 þús. ISK) á mánuði í styrk frá danska ríkinu. Þá geta námsmenn frá öðrum Evrópulöndum fengið styrkinn að uppfylltum vissum skilyrðum, svo sem að þeir vinni með námi. Þetta þekkja margir Íslendingar vel frá námsárum í Danmörku.

Rasmussen segir Dani verja jafnmiklu í SU-kerfið og til vísindarannsókna. „Öll önnur lönd – þar á meðal nágrannar okkar í Svíþjóð og Noregi – bera sig öðruvísi að,“ segir hann, en hugmyndir hans snúa að því að lækka styrkinn til námsmanna og veita þess í stað lán á hagstæðum kjörum þar sem nýta mætti endurgreiðslurnar til skattaafsláttar.

Bendir hann á að með núverandi fyrirkomulagi hafi myndast hvati fyrir hið opinbera til að fækka erlendum háskólanemum, til að spara námsstyrki. Þannig hafi námsleiðir á ensku í háskólum verið lagðar niður til að reyna að sporna við fjölgun erlendra námsmanna.

„Er það gáfulegt í heimi þar sem allt snýst um að laða að sér mesta hæfileikafólkið? Nei, það er heimskulegt,“ segir Rasmussen.

40 ára ferill

Lars Løkke Rasmussen sagði skilið við sinn gamla flokk Venstre á nýársdag eftir að hafa tilheyrt flokknum í fjóra áratugi. Rasmussen var forsætisráðherra Danmerkur í tvígang, fyrst árin 2009-2011 og svo aftur 2015-2019.

Hann sagði af sér formennsku í flokknum eftir að ríkisstjórnin féll í kosningum 2019. Það tap skrifaðist þó ekki á Rasmussen, sem jók fylgi flokks síns um fjögur prósentustig, heldur var um að kenna afhroði Danska þjóðarflokksins hvers fylgi meira en helmingaðist.

Løkke reyndi hvað hann gat að bjóða jafnaðarmönnum til samstarfs, en allt kom fyrir ekki. Ný vinstristjórn, undir forystu Mette Frederiksen, var mynduð og Rasmussen neyddist til að segja af sér sem formaður sumarið 2019 án þess að fá tækifæri til að leggja formennsku sína í dóm flokksfélaga á landsfundi um haustið, en það var nokkuð sem honum gramdist sérstaklega eins og hann greindi frá í bók sem hann gaf út í haust, Om det fleste og det meste. En nú er sumsé nýr kafli hafinn í stjórnmálaferli þessa reynda pólitíkuss.

mbl.is