Noregskonungur snýr aftur úr veikindaleyfi

Haraldur Noregskonungur og Sonja drottning.
Haraldur Noregskonungur og Sonja drottning. Ljósmynd/Konungshöllin/Sven Gj. Gjeruldsen

Haraldur Noregskonungur snýr aftur til skyldustarfa á mánudag en hann hefur verið í veikindaleyfi frá því í lok janúar. Norska ríkisútvarpið greinir frá þessu og hefur eftir konungshöllinni.

Haraldur, sem er 83 ára gamall, gekkst undir aðgerð á hægra hné og hefur Hákon krónprins sinnt störfum hans á meðan. Heilsu konungs hefur hrakað nokkuð síðustu misseri, en hann hefur áður tekið sér leyfi frá störfum vegna þrálátra svimakasta. Þá gekkst hann undir hjartaaðgerð í fyrra.

Haraldur hefur verið konungur í Noregi frá árinu 1991 þegar Ólafur faðir hans lést. Hann er fyrsti konungur landsins til að vera fæddur í Noregi frá því Ólafur Hákonarsson var konungur árin 1380-1387.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert