Bráðsmitandi afbrigði í skíðabæ

Loka þurfti skíðasvæðinu vegna fjölgunar nýrra smita í lok mars.
Loka þurfti skíðasvæðinu vegna fjölgunar nýrra smita í lok mars. Af vef skíðasvæðisins í Whistler

Af 877 staðfestum smitum P1-afbrigðisins í Bresku-Kólumbíu má rekja 200 til skíðabæjarins Whistler. Þetta kemur fram í frétt Guardian.

Skíðasvæðinu var lokað í Whistler af yfirvöldum í Bresku-Kólumbíu í lok mars þegar í ljós kom að P1-afbrigðið fór eins og eldur í sinu þar um.

Á sama tíma og víða í Kanada eru slegin met yfir fjölgun nýrra kórónuveirusmita hafa sérfræðingar miklar áhyggjur af fjölgun smita P1-afbrigðisins í Bresku-Kólumbíu. Hvergi í heiminum hafa greinst jafn mörg P1-smit utan Brasilíu á sama tíma og í fylkinu. Þar af er tæplega fjórðungur tengdur við Whistler.

Talið er að P1 sé bráðsmitandi og meiri hætta á alvarlegum veikindum, jafnvel dauða, meðal ungs fólks en þegar um önnur afbrigði er að ræða. Jafnframt er talin meiri hætta á endursmiti. Í Brasilíu er einkum tvennt sem talið er skýra hversu alvarleg staðan er í heilbrigðiskerfinu: fjöldi smitaðra með P1-afbrigðið og skortur á virkri sóttvarnastefnu stjórnvalda.

Enn er á huldu hvernig þetta afbrigði veirunnar kom til skíðabæjarins en enginn þeirra 84 sem fyrst voru greindir með P1 í bænum Whistler hefur ferðast utan Kanada.

Nú hefur P1-afbrigðið greinst í Alberta og talið er að 21 leikmaður íshokkí-liðs Vancouver, Canucks, hafi smitast af því afbrigði. Það er aftur á móti ekki ljóst hversu útbreitt afbrigðið er þar sem tafir hafa orðið á raðgreiningu í fylkinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert