Ekki slys heldur kjarnorkuhryðjuverk

Kjarnorkuverið í Natanz úr lofti.
Kjarnorkuverið í Natanz úr lofti. AFP

Kjarnorkustofnun Írans, IAEO, segir að kjarnorkuverið Natanz hafi orðið fyrir hryðjuverkaárás. Rafmagnsbilun þar hafi ekki verið óhapp eins og fyrst var talið.

Í yfirlýsingu fordæmir Ali Akbar Salehi, yfirmaður Kjarnorkustofnunar Írans, tilraunina sem hann segir þó hafa misheppnast. Hann hvetur alþjóðasamfélagið til að takast á við hryðjuverk andstæðinga kjarnorku.

Greint var frá atvikinu snemma í morgun en það varð aðeins sólarhring eftir að írönsk stjórnvöld tilkynntu að þau væru byrjuð að auðga úran á ný í kjarnorkuverinu.

Íranar höfðu gert samkomulag við helstu stórveldi um að láta af auðgun úrans árið 2015 gegn því að viðskiptaþvingunum yrði aflétt, en Donald Trump Bandaríkjaforseti dró landið úr samkomulaginu árið 2018.

Í yfirlýsingunni gefur Salehi ekki upp hverjir hafi staðið að hryðjuverkaárásinni, en fjölmiðlar í Ísrael hafa sagt netárás Ísraela vera ástæðuna. Eldur kom upp í kjarnorkuverinu í fyrra, sem yfirvöld í Íran segja einnig að hafi komið til vegna netárásar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert