Fullnægt með hengingu

Þessi mynd af Adolf Eichmann var tekin 11. apríl 1961, …
Þessi mynd af Adolf Eichmann var tekin 11. apríl 1961, þegar réttarhöldin yfir honum hófust. Hann stendur bak við skothelt gler. AFP

Í fjóra mánuði árið 1961 var villimennska nasista umfjöllunarefni réttarhalda í Ísrael. Við réttarhöld yfir einum helsta hugmyndasmiði helfararinnar, Adolf Eichmann. Réttarhöldin hófust 11. apríl 1961 og ári síðar var dómnum fullnægt með hengingu.

Ári áður hafði Eichmann verið fluttur með ævintýralegum hætti til Jerúsalem eftir að ísraelskir leyniþjónustumenn höfðu rænt honum í Argentínu en þangað hafði hann flúið eftir stríð og leynst undir fölsku nafni líkt og fleiri nasistar. 

Í frásögn AFP-fréttastofunnar kemur fram að Eichmann hafi verið fremur ósjálegur þegar hann sat á bak við skothelt gler í réttarsalnum en þá hafði honum verið haldið í 316 daga eftir að Mossad rændi honum með leynd í fangelsi í norðurhluta Ísraels.

AFP

Mikill fjöldi blaða- og fréttamanna var viðstaddur réttarhöldin í Jerúsalem og fylgdist með ásökunum á hendur manninum sem talinn er hafa stýrt því að sex milljónir gyðinga voru teknar af lífi. Þegar réttarhöldin hófust var þétt setinn bekkurinn í réttarsalnum, öll 700 sætin voru upptekin. Alls höfðu 450 blaðamenn lagt leið sína þangað til að berja Eichmann augum. Mann sem gekk undir heitinu verkfræðingur dauðans. 

Í frétt AFP-fréttastofunnar frá upphafi réttarhaldanna segir að sá ákærði sé klæddur í svört jakkaföt og augnaráð hans fjarlægt. Hann hafi hlýtt einbeittur á þýðingu túlksins yfir á þýsku þegar ákæruliðirnir 15 voru lesnir upp. Glæpir gegn þjóð gyðinga, glæpir gegn mannkyninu, stríðsglæpir, gripdeildir, mannrán, þvingaðar fóstureyðingar, ófrjósemisaðgerðir, útrýmingar og fleira.

 „Við bjuggumst við einhvers konar skrímsli miðað við glæpi hans en Eichmann virtist vera ósköp ómerkilegur starfsmaður hins opinbera,“ segir Marcelle Joseph, sem fylgdist með réttarhöldunum, tók þau upp og vélritaði síðan. En fyrir hana var hryllingurinn ekki maðurinn í glerbúrinu heldur vitnisburður þeirra sem lifðu af helförina.

Ben Kingsley lék Adolf Eichmann í kvikmyndinni Operation Finale.
Ben Kingsley lék Adolf Eichmann í kvikmyndinni Operation Finale. Ljósmynd Valeria Florini / Metro Goldwyn Mayer Pictures

Alls báru 111 einstaklingar vitni næstu fjóra mánuði og þrjá daga. Hver þeirra lýsti hryllingnum sem hann upplifði persónulega. Þar á meðal voru rithöfundar eins og Elie Wiesel og Joseph Kessel.

Einn þeirra lýsti því hvernig hann var leiddur ásamt rúmlega eitt þúsund gyðingum að tómri gröf í Póllandi. Þar var þeim fyrirskipað af nasistaforingja að krjúpa á kné, afklæðast og þeir síðan skotnir á brún eigin grafar. 

Maður sem lifði af dvölina í Treblinka-útrýmingarbúðunum lýsti hryllingnum í gasklefunum þar sem fórnarlömbin voru oft svo mörg að jafnvel þeir látnu stóðu uppréttir áfram. 

Eichmann neitaði að hafa borið ábyrgð á glæpunum. Hann hafi bara verið að fylgja fyrirskipunum. Heimspekingurinn Hannah Arendt fylgdist með réttarhöldunum allan tímann fyrir The New Yorker. Hún sagði í bók sinni Eichmann í Jerúsalem, þar sem hún fjallaði um svonefnda „flatneskju illskunnar“ að illska Eichmanns, sýndist henni, væri helst fólgin í því, að hann virtist ekkert hugsa um réttmæti eða óréttmæti gjörða sinna.

15. desember 1961 féll dómur í málinu. Dauðadómur sem fullnægja átti með hengingu. Lögmaður Eichmanns, 
Robert Servatius, áfrýjaði dómnum en var hafnað. Eins var skriflegri beiðni Eichmanns sjálfs um að refsingunni yrði frestað hafnað. Beiðnina bar hann upp í bréfi til þáverandi forseta Ísraels, Yitzhak Ben-Zvi.

„Það þarf að gera grein­ar­mun á ábyrg­um leiðtog­um og fólki eins og mér, sem var neytt til að þjóna sem verk­færi í hönd­um leiðtog­anna,“ stend­ur m.a. í bréf­inu. 

Þann 31. maí 1962 var Eichmann hengdur í Ramleh-fangelsinu skammt fyrir utan Tel Aviv. Ösku hans var síðar dreift á hafi úti, fyrir utan ísraelska landhelgi. 

Tilheyrði hópi gyðingahatara

Ítarlega var fjallað um Eichmann í Morgunblaðinu þegar réttarhöldin stóðu yfir í Ísrael. Meðal annars birtist grein þar sem saga hans var rakin. Hana má lesa í heild hér en hér verður stiklað á stóru í því sem þar kemur fram.

Adolf Eichmann fæddist 19. mars 1906 í bænum Soling í Ruhrhéraði. Hann var elsti sonur foreldra sinna. Faðir hans var vélaverkfræðingur. Þau eignuðust þrjá syni og eina dóttur til viðbótar, en þegar Adolf var tíu ára dó móðir hans. Varð þá úr að faðir hans fluttist til Linz í Austurríki með börn sín og settist þar að og komst brátt í tölu betri borgara.

Adolf var settur til náms í menntaskólanum í Linz, en fáum árum áður hafði annar Adolf með ættarnafnið Hitler stundað nám í sama skóla. Honum gekk námið illa og loks féll hann á stúdentsprófi. Þá var hann settur til náms í vélskóla, en hætti því námi. Faðir hans var nú farinn að líta á hann sem vandræðabarn segir í grein Morgunblaðsins.

Adolf Hitler ávarpar fjöldafund í Þýskalandi árið 1933.
Adolf Hitler ávarpar fjöldafund í Þýskalandi árið 1933. Ljósmynd Brittanica

Eichmann kom á þessum tíma í fyrsta skipti til Vínarborgar. Hann fékk þá þegar sérstakan áhuga fyrir gyðingahverfi borgarinnar og við frekari dvöl í Vín dvaldist hann langdvölum í hverfinu, kynntist gyðingunum og lifnaðarháttum þeirra, lærði mál þeirra – jiddísku – svo hann talaði hana reiprennandi og komst niður í fornmáli þeirra hebresku. Þessi kynning Eichmanns af gyðingum og sambúð við þá var mjög undarleg, því ekki var hún af neinni aðdáun eða vináttu til þeirra. Hann tilheyrði flokki gyðingahatara, segir í grein Morgunblaðsins frá 6. mars 1961.

„Hann hugsaði mikið um gyðingana og menn halda að hann hafi orðið svo gagntekinn af þessu, vegna þess að útlit hans sjálfs líktist gyðingi. Það var sérstaklega nefið sem gaf honum gyðingalegan svip, mjótt og íbjúgt með stórum nösum. Það kom oft fyrir hann, að ráðist var á hann vegna útlitsins og hann rekinn út af því að hann væri gyðingur. Ekki er nákvæmlega vitað, hvenær Eichmann kynntist fyrst nasisma Hitlers, en ástæða er til þess að ætla að hann hafi hlustað á ræðu sem Hitler flutti í Berchtesgaden rétt hjá austurrísku landamærunum,“ segir í greininni.

Árið 1932 gekk Eichmann í þýska nasistaflokkinn þrátt fyrir að búa og starfa í Austurríki. Hann kom hvenær sem á hann var kallað til München í Bæjaralandi. Í mars 1933 var hann meðal annars beðinn um að koma en þetta var eftir þinghúsbrunann í Berlín. 

„Engar upplýsingar eru til um það, hvað marga menn hann pyntaði og myrti með eigin hendi þessar brjálæðislegu nætur í München. Nokkru síðar missti hann atvinnu sína í Austurríki og var ráðinn fangavörður í nýstofnuðum pólitískum fangabúðum nasista við Dachau skammt norðvestur af München. En honum líkaði ekki það starf, það var óhreint.

Hann hafði líka kynnst háttsettum manni í SS-liðinu, sem nefndist Heydrich og var ráðinn starfsmaður í skrifstofu SS-lögreglunnar. Nú kom sér vel fyrir hann að hafa kynnst lífi gyðinganna í Vínarborg. Það var bráðlega farið að líta Eichmann sem sérfræðing í málefnum gyðinga,“ segir enn fremur í greininni.

Adolf Eichmann, mynd frá árinu 1942.
Adolf Eichmann, mynd frá árinu 1942. Ljósmynd/Wikipedia.org

Í mars 1938 hernámu Þjóðverjar Austurríki. Þau atvik urðu Adolf Eichmann mikil lyftistöng. Það vildi svo vel til fyrir hann, að hann hafði alist að mestu upp í Austurríki og hann þekkti mjög vel til gyðinganna í Vín sem nazistar ætluðu nú að glíma við.

Þann 11. mars, sameiningardaginn, flaug Himmler, yfirmaður SS-sveitanna, til Vínarborgar og með honum nokkrir útvaldir menn, þeirra á meðal Heydrich og Adolf Eichmann. Aðeins liðu fáeinar klukkustundir frá því að flugvél þeirra hafði lent á Aspern-flugvellinum við Vín, þar til aðgerðir Eichmanns gegn gyðingum voru hafnar.

Á hverju horni voru gyðingar á hækjum sínum að þvo strætin með klútum og yfir þeim stóðu vopnaðir SS-menn,“ segir enn fremur í greininni.

„Þann 30. janúar 1938 voru málefni gyðinganna í öllu Þýskalandi fengin Adolf Eichmann sem stofnaði þá „Aðalskrifstofu gyðingaútflutningsins“. Á þeim sama degi flutti Hitler ræðu og lýsti því yfir að gyðinga-kynþættinum skyldi útrýmt úr Evrópu. Enn sem komið var þýddi orðið „útrýmt" þó aðeins að þeir skyldu fluttir úr landi. Þó sagði Hitler, að ef gyðingarnir ekki fengjust fluttir burt, væri aðeins um eina aðra leið að ræða, — að þurrka þá út,“ segir í grein Morgunblaðsins skömmu áður en réttarhöldin hófust í Jerúsalem. 

mbl.is