Læknar gerðir að sérstöku skotmarki hersins

Að minnsta kosti 618 hafa látist af völdum ofbeldis hersins, …
Að minnsta kosti 618 hafa látist af völdum ofbeldis hersins, þar af 43 börn, og þúsundir hafa verið teknir höndum og óvíst er um afdrif þeirra. AFP PHOTO / ANONYMOUS SOURCE

Htet Htet Win og eiginmaður hennar voru sein heim síðasta sunnudagskvöld. Útgöngubann hersins hafði þegar tekið gildi þegar þau þutu um götur Mandalay í austanverðu Mjanmar á mótorhjólunum sínum. Hermenn urðu varir við ferðir þeirra og kölluðu til þeirra að stöðva för sína. Þegar þau gerðu það ekki hófst skothríðin.

Eiginmaður Htet Htet Win varð fyrir skoti en tókst að komast undan en hún var ekki jafn heppin. 

Á óskýrri ljósmynd sem vitni náði af vettvangi sést hún liggjandi á maganum með hendurnar fyrir ofan höfuð og fjólublá föt heilbrigðisstarfsmanns alsett dekkri blettum.

Læknar telja að koma hafi mátt í veg fyrir fjölda …
Læknar telja að koma hafi mátt í veg fyrir fjölda þessara dauðsfalla ef þeim hefði verið leyft að athafna sig. AFP PHOTO / Kanbawza Tai News

Læknar telja að Htet Htet Win hafi enn verið á lífi, en íbúar í nágrenni vettvangsins vöruðu við því að hermenn biðu skammt frá. Óttast var að um gildru væri að ræða. „Mér leið eins og þeir sætu um okkur,“ er haft eftir einum viðbragðsaðila, sem telur að hún hefði lifað af hefði hún komist strax undir læknishendur. Þau þurftu hins vegar að bíða í klukkustund áður en hermennirnir yfirgáfu svæðið. Þá var það orðið of seint.

Samkvæmt umfjöllun Guardian er um að ræða atburðarás sem er orðin óhugnanlega kunnugleg læknum í kjölfar valdaránsins í Mjanmar, en þeir segja herinn markvisst hafa beitt þá ofbeldi og komið í veg fyrir að þeir gætu hjálpað fórnarlömbum árása þeirra, skotið á sjúkrabíla, handtekið, barið og jafnvel drepið kollega þeirra. Sums staðar eru læknar jafnvel hættir að ganga í einkennisklæðnaði sínum, sem þeir upphaflega töldu að myndi vernda þá fyrir árásum hersins, til þess að skera sig ekki úr því þeir telja herinn gera þá að sérstöku skotmarki.

Þrátt fyrir að Sameinuðu þjóðirnar og stjórnvöld víða um heim hafi fordæmt ofbeldi mjanmarska hersins gagnvart friðsælum mótmælendum heldur hrottaskapurinn áfram. Að minnsta kosti 618 hafa látist af völdum ofbeldis hersins, þar af 43 börn, og þúsundir hafa verið teknir höndum og óvíst er um afdrif þeirra. Læknar telja að koma hafi mátt í veg fyrir fjölda þessara dauðsfalla ef þeim hefði verið leyft að athafna sig.

mbl.is