Smitaðir hangi á McDonalds

Peter Rahbæk Juel, bæjarstjóri í Óðinsvéum, segir það ekki ná …
Peter Rahbæk Juel, bæjarstjóri í Óðinsvéum, segir það ekki ná nokkurri átt að kórónuveirusmitaðir bæjarbúar valsi um í verslunarleiðöngrum, hangi á McDonalds og láti sér almennt í léttu rúmi liggja að þeir eigi að vera heima í einangrun. Þeir Ole Bjørstorp, kollegi hans í Ishøj, vilji nú fá að sekta þá sem er „flautandi sama“. Skjáskot/TV2Fyn

„Það nær ekki nokkurri átt að allur þessi viðbúnaður sé hafður þegar fámennur hópur smitaðra fer svo í innkaupaferðir og hangir á McDonalds þegar þetta fólk á að vera í einangrun. Hætta er á að þeir smiti vini, kunningja, nágranna og samborgarana.“

Þetta segir Peter Rahbæk Juel, bæjarstjóri í Óðinsvéum í Danmörku, í samtali við danska ríkisútvarpið DR, en hann, ásamt starfsbróður sínum í Ishøj, Ole Bjørstorp, beiðist þess nú af dönskum yfirvöldum að sveitarfélögum verði veitt heimild til að sekta fólk sem smitað er af kórónuveirunni en er „flautandi sama“ eða fløjtende ligeglad eins og það er orðað í frétt DR.

Juel segir rétt að fólk fái að finna fyrir því í pyngjunni nenni það ekki að halda sig í einangrun svo sem lög og reglur geri ráð fyrir. Kveðst hann vilja sjá svokallaðri flugvallaaðferð beitt í bæjunum.

„Ég gæti vel hugsað mér meiri afleiðingar. Þeirra, sem koma með flugi til landsins og er gert að fara í einangrun, bíður sekt brjóti þeir gegn því. Þannig vildi ég hafa það ef við sjáum fólk hér sem augljóslega á ekki að vera á almannafæri en lætur það sér í léttu rúmi liggja og hlýðir ekki reglunum,“ segir hann.

Heilbrigðisráðherra ekki hrifinn

Undir þetta tekur Bjørstorp í Ishøj. „Við viljum sjá meiri eftirfylgni. Það hefði mikil fyrirbyggjandi áhrif, að fólk sæi einhverjar afleiðingar. Ef við lítum á Vollsmose [bæjarhluta í Óðinsvéum] var fjöldi smitaðra þar í gær 339 og í Ishøj mesti fjöldi í landinu, 433.“

Sektir fyrir rof einangrunar hafa verið til umræðu á danska þinginu, en ekki náð þar fram að ganga. Magnus Heunicke heilbrigðisráðherra lagðist gegn sektum fyrir slíkt þar sem ætla mætti að færri gengjust þá undir veirupróf.

DR náði hvorki tali af Heunicke né Nick Hækkerup dómsmálaráðherra í dag vegna málsins.

DR

TV2

Jyllands-Posten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert