Söder og Laschet vilja taka við af Merkel

Markus Söder, forsætisráðherra Bæjaralands, gefur kost á sér sem kanslaraefni …
Markus Söder, forsætisráðherra Bæjaralands, gefur kost á sér sem kanslaraefni Kristilegra demókrata. Hið sama gerir Armin Laschet formaður. AFP

Armin Laschet, formaður Kristilegra demókrata í Þýskalandi, og Markus Söder, forsætisráðherra Bæjaralands, hafa boðið sig fram sem kanslaraefni Kristilegra demókrata.

Þingkosningar fara fram í landinu í september, en Angela Merkel, sem leitt hefur flokkinn í 21 ár og verið kanslari í 16 ár, sest þá í helgan stein.

Laschet var kjörinn formaður flokksins á landsfundi í janúar. Jafnan mætti ganga út frá því að embættinu fylgdi að vera kanslaraefni flokksins, en lengi hefur þó verið vitað að keppnin um tilnefninguna gæti orðið snúnari.

Fylgi Kristilegra demókrata í Þýskalandi hefur verið á niðurleið síðustu mánuði og hefur flokkurinn nýlega farið undir 30 prósent í könnunum á sama tíma og Græningjar eru á miklu flugi. Í Bæjaralandi nýtur Söder hins vegar mikils stuðnings, þar sem hann fer fyrir bæverskum systurflokki Kristilegra demókrata, CSU. 

Ákvörðunin um kanslaraefni verður að öllum líkindum tekin bak við lultar dyr, en í fréttaskýringu AFP segir að Laschet sé fremur talinn njóta stuðnings helstu manna innan flokksins, þótt Söder eigi nokkrum vinsældum að fagna innan þingflokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert