„Nú deyja þeir“

Maðurinn missti að lokum stjórn á sjúkrabifreiðinni, sem hann hafði …
Maðurinn missti að lokum stjórn á sjúkrabifreiðinni, sem hann hafði rænt vopnaður óhlaðinni hlaupstýfðri haglabyssu, og ók á húsvegg í Torshov. Ákæra gegn honum er í 24 liðum og vitnin rúmlega 40 í aðalmeðferðinni sem hófst fyrir Héraðsdómi Óslóar í dag. Ljósmynd/AFP

„Ég sá sjúkrabifreiðina koma á móti mér á fullri ferð. Hann sýndi þess engin merki að hann hygðist víkja. Svo ekur hann á barnavagninn minn,“ sagði móðir á fertugsaldri sem í dag rifjaði upp sláandi upplifun 22. október 2019 úr vitnastúkunni í Héraðsdómi Óslóar.

Í dag hófst aðalmeðferð máls rúmlega þrítugs manns sem ákærður er fyrir sjö tilraunir til manndráps, rán, alvarlegar hótanir og stórfelld brot á umferðarlögum þegar hann tók sjúkrabifreið traustataki í Torshov í Ósló téðan dag eftir að hafa velt sinni eigin bifreið.

Maðurinn ógnaði sjúkraflutningamönnunum með afsagaðri haglabyssu, sem reyndist ekki hlaðin, og hélt svo, ásamt 25 ára gamalli konu sem með honum var, í ofsaakstur um borgina sem lauk með því að hann ók á vegg fjölbýlishúss við gang sem liggur inn að opnu garðrými að húsabaki og þurfti lögregla að beita piparúða til að yfirbuga hann við handtökuna.

Fylltist ofsahræðslu

Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan hann var handtekinn og hefur áður hlotið fjölda dóma, meðal annars fyrir rán, vopnaburð og vörslur fíkniefna.

„Nú deyja þeir,“ sagðist vitnið, móðir tvíburanna, hafa hugsað með sér í hreinni skelfingu þegar barnavagn tvíburanna Iben og Noah kastaðist úr höndum hennar við áreksturinn. Þótt ótrúlegt megi virðast sluppu þeir bræður með skrekkinn og smáskrámur, en þeir voru festir með öryggisólum í vagni sínum.

„Ég fylltist ofsahræðslu og var hreinlega skíthrædd,“ sagðist móðurinni frá í dag. Hefði hún mátt þola ýmis eftirköst í kjölfar þessa atviks, sem henni seint gleymist. „Ég upplifi heiminn sem óhugnanlegri eftir það sem gerðist. Ég bregst harkalega við þegar ég sé sjúkrabifreiðar í forgangsakstri. Þá fyllist ég lamandi ótta og finnst sem mín hinsta stund sé upp runnin,“ lýsti hún fyrir dómendum í dag.

Fjölda skotgata mátti sjá á hliðum sjúkrabifreiðarinnar eftir tilraunir lögreglu …
Fjölda skotgata mátti sjá á hliðum sjúkrabifreiðarinnar eftir tilraunir lögreglu til að stöðva för hennar með öllum ráðum, en kraftaverk þykir að enginn slasaðist alvarlega við ofsaakstur mannsins sem nú er ákærður fyrir sjö tilraunir til manndráps, rán, hótanir og umferðarlagabrot. Ljósmynd/AFP

Alls munu rúmlega 40 vitni að atburðinum lýsa upplifun sinni við aðalmeðferð málsins sem gert er ráð fyrir að taki þrjár vikur og er móðir tvíburanna ekki sú eina sem gengið hefur um dimman dal sálrænna eftirkasta.

Kona á áttræðisaldri segist enn fá martraðir þar sem hún endurupplifi skelfinguna þegar loftþrýstingsbylgja frá sjúkrabifreiðinni kastaði henni á girðingu þegar ákærði ók fram hjá henni og manni hennar á ofsahraða við Sandaker Senter með fjölda lögreglubifreiða í kjölfari sínu. „Mér gafst ekki einu sinni tími til að hugsa,“ sagði konan um upplifun sína.

Með umtalsvert magn fíkniefna

Ákærði, sem var í mikilli vímu þegar hann velti sinni eigin bifreið og rændi sjúkrabifreiðinni, kveðst ekki hafa ætlað sér að setja nokkurn mann í hættu. „Það eina sem komst að hjá honum var að koma sér undan lögreglunni því hann hafði umtalsvert magn fíkniefna meðferðis sem honum var ætlað að afhenda,“ segir Øyvind Begøy Pedersen, verjandi mannsins, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Málið er rekið fyrir Héraðsdómi Óslóar og er gert ráð …
Málið er rekið fyrir Héraðsdómi Óslóar og er gert ráð fyrir að aðalmeðferðin taki þrjár vikur enda rúmlega 40 manns á vitnalista. mbl.is/Atli Steinn

Ákæruvaldið, Alvar Randa saksóknari, vill meina að ákærða hafi verið fullkomlega skiljanlegt að gjörðir hans 22. október fyrir hálfu öðru ári hefðu getað kostað mannslíf en ákæruatriðin sem nú liggja fyrir Héraðsdómi Óslóar í málinu eru alls 24.

NRK

VG

TV2

Nettavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert