Skotinn til bana í Ósló

Maður var skotinn til bana í íbúð í Røa í …
Maður var skotinn til bana í íbúð í Røa í Ósló fyrr í kvöld og hefur lögregla handtekið mann á fertugsaldri sem grunaður er um verknaðinn. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Maður á fertugsaldri er í haldi lögreglunnar í Ósló í Noregi eftir að annar var skotinn til bana í íbúð í Røa, rólegu hverfi í vesturborginni, fyrr í kvöld.

„Lögreglan er á staðnum vegna manns sem skotinn var til bana í íbúð. Við höfum einn mann í haldi,“ segir Gunnhild Finne Nilsen, vettvangsstjóri lögreglu, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK rétt í þessu.

Vill lögregla enn sem komið er ekki gefa neitt upp um fórnarlambið né tengsl þess við meintan skotmann.

Ganga hús úr húsi

Fleiri voru til staðar í íbúðinni þegar skotárásin var gerð og hringdi einn viðstaddra í lögreglu klukkan 20:56 í kvöld að norskum tíma. Hefur hinn handtekni verið færður á lögreglustöð þar sem hann mun sæta yfirheyrslu svo fljótt sem því verður við komið að sögn lögreglu.

Ganga lögreglumenn nú hús úr húsi í nágrenninu og spyrja íbúa hvort þeir hafi orðið einhvers varir sem komið gæti að gagni við rannsókn málsins auk þess sem tæknideild lögreglu er á vettvangi við öflun gagna.

NRK

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert