Skutu ungan mann til bana

AFP

Hundruð komu saman og mótmæltu við lögreglustöð í úthverfi Minneapolis í gærkvöldi eftir að lögreglumaður skaut ungan svartan mann til bana fyrr um daginn í bænum.

Í Minneapolis standa nú yfir réttarhöld yfir lögreglumanni sem er sakaður um að hafa myrt George Floyd, sem lést eftir að hafa verið haldið föngnum af lögreglumanni í rúmar 9 mínútur fyrir tæpu ári.

AFP

Lögreglan beitti táragasi á mannfjöldann fyrir utan lögreglustöðina í Brooklyn Center, norðvestur af Minneapolis. Um miðnætti að staðartíma, klukkan 5 í morgun að íslenskum tíma, voru þjóðvarðliðar á vettvangi og bæjarstjórinn í Brooklyn Center hefur fyrirskipað útgöngubann í bænum.

Móðir unga mannsins, Daunte Wright, tvítugs svarts manns, ávarpaði mannfjöldann fyrr um kvöldið. Hún sagði að Wright hefði hringt í hana og sagt henni að lögreglan hefði stöðvað hann í umferðinni síðdegis.   

Katie Wright sagði að hún hefði heyrt lögreglumenn segja honum að leggja frá sér símann og að einn lögreglumannanna hefði lokið símtalinu. Skömmu síðar hafi unnusta Daunte haft samband og sagt að hann hefði verið skotinn af lögreglu.

AFP

Rannsóknarlögreglan í Minnesota staðfestir við AFP-fréttastofuna að hún rannsaki skotatvik þar sem lögreglumaður á í hlut en neitaði að upplýsa um hvert fórnarlambið væri. 

Samkvæmt yfirlýsingu frá lögreglunni í Brooklyn Center stöðvaði lögreglan ökumann fyrir umferðarlagabrot. Þegar í ljós kom að handtökuskipun var í gildi gagnvart manninum hafi þeir reynt að handtaka hann. Maðurinn hefði farið aftur inn í bifreið sína og einn lögreglumannanna hefði skotið og hæft ökumanninn sem lést á vettvangi.

AFP

Kona sem var farþegi í bifreiðinni hlaut einnig áverka og var flutt á sjúkrahús. Áverkarnir eru ekki lífshættulegir segir enn fremur í yfirlýsingu frá lögreglunni. 

Mótmælt var í Minneapolis í gærkvöldi eftir að lögreglan skaut …
Mótmælt var í Minneapolis í gærkvöldi eftir að lögreglan skaut ungan svartan mann til bana. AFP

Undanfarna daga hefur verið réttað yfir fyrrverandi lögreglumanni, Derek Chauvin, sem er ákærður fyrir að hafa drepið Floyd í maí. Í kjölfarið brutust út mótmæli víða um Bandaríkin þar sem kynþáttahatri og lögregluofbeldi var mótmælt harðlega. 

mbl.is