Söguleg verksmiðja brennur

Einn slökkviliðsmaður er látinn og tveir eru alvarlega slasaðir eftir gríðarlegan eldsvoða í sögulegri verksmiðju í Sankti Pétursborg, að því er segir á vef BBC.

Eldsvoðinn braust út snemma í dag og skömmu síðar hafði hann borist á allar sex hæðirnar í Nevskaya Manufaktura-byggingunni. Ekki er vitað hvað olli eldsvoðanum.

Fjörutíu manns voru fluttir á brott úr byggingunni en mikið af þaki og gólfefni hafði hrunið, sagði rússneska neyðarráðuneytið.

Sterkir vindar gerðu það að verkum að gríðarmikill svartur reykur var sjáanlegur yfir borginni. Þá var mjög vandasamt að slökkva eldinn.

Verksmiðjubyggingin Nevskaya Manufaktura verður eldi að bráð.
Verksmiðjubyggingin Nevskaya Manufaktura verður eldi að bráð. AFP

Á lista yfir verðmæta staði

Byggingin er frá árinu 1841 en þá var hún notuð til framleiðslu dúka og er hún í dag þekkt kennileiti í Sankti Pétursborg. Verksmiðjunni var stjórnað af stjórnvöldum á tímum Sovétríkjanna en var síðan einkavædd árið 1992.

Hluti byggingarinnar hafði síðustu ár verið notaður til framleiðslu dúka en önnur svæði voru leigð út sem skrifstofuhúsnæði eða yfirgefin, að sögn AFP.

Árið 2001 var verksmiðjunni bætt á lista Sankti Pétursborgar yfir verðmæta staði sökum sögulegs og menningarlegs gildis.

 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert