Tíundi hver íbúi í sóttkví

Í bænum Steinkjer í Þrændalögum er nú tíundi hver íbúi …
Í bænum Steinkjer í Þrændalögum er nú tíundi hver íbúi í sóttkví vegna fjölda kórónuveirusmita sem greinst hafa síðustu vikuna. Staðurinn er merkilegur í sögulegu tilliti, umhverfis Steinkjer hafa miklar fornleifar fundist og 113 grafir fornmanna og þar sátu enn fremur þeir hálfbræður, Sveinn og Eiríkur Hákonarsynir Hlaðajarlar, er þeir réðu ríkjum í Noregi í skjóli Sveins Danakonungs tjúguskeggs. Ljósmynd/Wikipedia.org/Havardzeiner

Svo mjög hefur kórónuveirutilfellum fjölgað í bænum Steinkjer í Þrændalögum í Noregi að nú sitja 2.500 í sóttkví þar, af 24.000 íbúum, eða tíundi hver. Í síðustu viku kom fjöldi nýrra kórónuveirutilfella upp í Steinkjer og 14 í gær.

Er nú niðurstaðna beðið úr á sjöunda hundrað prófa, en 1.992 hafa gengist undir próf frá því á fimmtudag, eftir því sem Sunniva Rognerud, yfirlæknir sveitarfélagsins, segir norska dagblaðinu VG.

Alls hafa 36 ný smit komið fram frá því á þriðjudaginn fyrir tæpri viku, þar af mörg meðal nemenda í barnaskóla bæjarins, en 19 tilfellanna 36 hafa greinst hjá yngra fólki en 18 ára. „Eins og staðan er núna reiknum við með að smitleiðir sem okkur er ekki kunnugt um séu allt að tíu,“ segir Rognerud.

Fundað um stöðu mála

Í dag lokuðu verslunarmiðstöðvar og skólar í Steinkjer dyrum sínum, að frátöldum fyrsta til fjórða bekk í barnaskólanum þar sem kennsla fer enn fram, en á svokölluðu rauðu viðbúnaðarstigi sem felur í sér ýtrustu smitvarnaráðstafanir.

Að sögn Anne Berit Lein, bæjarstjóra í Steinkjer, hefur sjúkrahúsið í nágrannabænum Levanger, sem þjónar Steinkjer, hert róðurinn og aukið afköst sín svo nú þarf ekki lengur að senda öll próf til St. Olavs-sjúkrahússins í Þrándheimi og bíða eftir svari þaðan sem tekur mun lengri tíma. Prófsvör fáist nú frá Levanger innan tólf klukkustunda.

Síðdegis í dag funduðu bæjaryfirvöld í Steinkjer um stöðu mála með fulltrúum nágrannasveitarfélaganna, sem meðal annars eru Namsos, Overhalla og Levanger, auk þess sem fulltrúar lögreglu sóttu fundinn og fylkisfulltrúi, eða statsforvalter, Þrændalaga.

VG

VGII

NRK

mbl.is