Vilja leggja niður stutt innanlandsflug

Air France.
Air France. AFP

Franskir þingmenn greiddu á laugardaginn atkvæði með frumvarpi um að leggja niður innanlandsflug, þar sem hægt væri að fara sömu leið með lest á innan við tveimur og hálfum tíma, til að draga úr kolefnislosun. Þetta kemur fram á vef BBC.

Fyrirhugaðar aðgerðir munu þó þurfa að standa frammi fyrir frekari atkvæðagreiðslu í öldungadeildinni áður en þær geta orðið að lögum.

Flugfélög um allan heim hafa átt í erfiðleikum vegna Covid-19 og hefur vefsíðan Flightradar24 greint frá því að flugferðum í fyrra hafi fækkað um tæp 42% frá árinu 2019. 

Aðgerðirnar gætu haft áhrif á ferðalög milli Parísar og borga eins og Nantes, Lyon og Bordeaux. Stytting flugleiðanna á þó ekki að hafa áhrif á tengiflug.

150 almennir borgarar, sem tóku þátt í loftslagsráðstefnu á vegum forseta Frakklands, Emmanuel Macron, höfðu þó lagt til að lagðar yrðu niður flugferðir þar sem hægt væri að fara sömu leið á innan við fjórum tímum.

Franska þingið hefur kosið með því að leggja niður flugferðir …
Franska þingið hefur kosið með því að leggja niður flugferðir þar sem lest getur farið sömu leið á innan við tveimur og hálfum tíma. AFP

Atkvæðagreiðslan á laugardaginn átti sér stað nokkrum dögum eftir að franska ríkisstjórnin meira en tvöfaldaði hlut sinn í Air France. Ríkisstjórnin hafði áður boðið 7 milljarða evra í lán til að hjálpa flugfélaginu, þó að efnahagsráðherra Frakklands hafi sagt á sínum tíma að fjármögnunin væri háð því að flugfélagið fækkaði innanlandsflugferðum.

mbl.is