Ævaforn stolin stytta fannst í forngripaverslun

Ítalskir lögreglumenn handleika rómversku styttuna.
Ítalskir lögreglumenn handleika rómversku styttuna. AFP

Ævafornt rómverskt listaverk, sem var stolið fyrir áratug, hefur aftur litið dagsins ljós eftir að tveir ítalskir lögreglumenn, sem voru á frívakt, komu auga á verkið í verslun forngripasala í Brussel, höfuðborg Belgíu. 

Ítalska lögreglan greindi frá þessu í dag. 

Um er að ræða marmarastyttu sem nefnist Togatus. Hún sýnir líkama manns frá 1. öld sem klæddur er í tógaklæðnað. Styttunni var stolið úr glæsihýsi í Rómaborg árið 2011. 

Ítalska lögreglan birti í dag þessar mynd af styttunni sem …
Ítalska lögreglan birti í dag þessar mynd af styttunni sem fannst í verslun forngripasala í Belgíu. AFP

Lögreglumennirnir rákust á höggmyndina er þeir voru á ferðinni í Sablon-hverfi borgarinnar, sem er þekkt fyrir verslanir sem selja forngripi, gömul vönduð húsgögn og fleira. Þeir ákváðu að kanna málið betur og er þeir komu aftur til Rómar gátu þeir flett upp styttunni, sem hafði verið skráð í kerfi lögreglunnar í kjölfar þjófnaðarins. Um sama verk var að ræða. 

Styttan er metin á um 100.000 evrur, sem jafngildir um 15 milljónum kr., og lagði lögreglan hald á hana með aðstoð belgískra yfirvalda. Hún var síðan flutt aftur til Ítalíu í febrúar sl. að sögn lögreglu. 

Rannsókn málsins hélt svo áfram og í kjölfarið var ítalskur listmunasali, sem starfaði undir spænsku dulnefni, ákærður fyrir að hafa þýfi undir höndum og fyrir að hafa flutt höggmyndina úr landi með ólögmætum hætti.

mbl.is