Banvæn mistök lögreglu

Mótmælt var í Minneapolis í gærkvöldi annað kvöldið í röð þrátt fyrir útgöngubann eftir að ungur svartur maður var skotinn til bana af lögreglunni síðdegis á sunnudag. Svo virðist sem reynslumikil lögreglukona hafi ruglast á vopnum, það er skammbyssu og rafbyssu. Mistök sem reyndust banvæn. 

Mikil spenna er í borginni vegna réttarhalda yfir lögreglumanni sem er ákærður fyrir að hafa drepið svartan mann, George Floyd, í fyrra. 

Tugir komu saman við lögreglustöðina í Brooklyn Center, hverfinu þar sem ungi maðurinn var skotinn til bana. Fólkið bar mótmælaspjöld og krafðist þess að lögreglukonan yrði handtekin og dæmd í fangelsi fyrir drápið. Lögregla beitti táragasi ítrekað á mótmælendur og 40 voru handteknir. Nokkrir lögreglumenn meiddust lítillega og eitthvað var um gripdeildir í nágrenninu.

Líkt og fram kom á mbl.is í gærkvöldi var Daunte Wright skotinn til bana af lögreglukonu sem ruglaðist á vopnum – hélt að hún væri beita rafbyssu ekki skammbyssu. Í myndskeiði úr líkamsmyndavél lögreglunnar heyrist hún kalla: Taser! Taser! Taser! en í stað þess að skjóta úr rafbyssu skýtur hún skammbyssukúlu í átt að Wright.

Lögreglustjórinn í Brooklyn Center, Tim Gannon, segist telja að um óhappaverk hafi verið að ræða. Lögreglukonan var send í launalaust leyfi á meðan rannsókn stendur yfir.

Í myndskeiðinu sjást lögreglumenn handjárna Wright en hann streitist á móti og fer inn í bíl sinn. Lögreglukonan, Kim Potter, kallar „ég mun beita rafstuði“ og síðan kallar hún taser! Taser! Taser! líkt og hefð er fyrir hjá bandarísku lögreglunni áður en hleypt er af rafbyssunni.

„Hver fjárinn, ég skaut hann,“ heyrist Potter síðan segja þegar Wright sést keyra á brott en skömmu síðar sést hann missa stjórn á bifreiðinni og var úrskurðaður látinn á vettvangi. Ekki er komin skýring á því hvernig Potter, sem hefur starfað í lögreglunni í 26 ár, tókst að ruglast á vopnum.

Rafbyssur líta allt öðruvísi út en þær skammbyssur sem lögreglan í Bandaríkjunum ber og auk þess er lögreglan með ákveðnar reglur varðandi það hvernig slík vopn eru borin til að koma í veg fyrir slíkan rugling.

mbl.is