Fækkun gyðinga áhyggjuefni

Við grátmúrinn.
Við grátmúrinn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Gyðingum hefur fækkað hlutfallslega í Ísrael síðustu ár. Er svo komið að ríflega fjórði hver íbúi er ekki gyðingur. Þykir ástæða til að sporna gegn þróuninni.

Fjallað er um málið á vef Jerusalem Post.

Vísað er í tölfræði ísraelsku hagstofunnar þess efnis að árið 1948, þegar Ísraelsríki var stofnað, hafi 82,1% íbúanna verið gyðingar. Nú sé hlutfall þeirra í fyrsta sinn komið undir 74%.

Nú séu 6,984 milljónir landsmanna gyðingar og 1,966 milljónir arabar, eða 21,1% íbúafjöldans.

Milljónir innflytjenda

Frá stofnun ríkisins hafi 3,3 milljónir manna flutt þangað, þar með talið 1,5 milljónir manna eftir árið 1990, þegar gyðingar frá fyrrum ríkjum Sovétríkjanna fluttu suður.

Jerusalem Post ræðir við Yonatan Jakubowicz, sem stýrir stofnun innflytjendamála í Ísrael.

Telur hann tölfræði ísraelsku hagstofunnar sýna fram á þörfina fyrir ábyrga stefnu í innflytjendamálum. Fæstir landsmenn geri sér grein fyrir því hversu mikil umskiptin eru. Tryggja þurfi hagsmuni Ísraels sem ríkis gyðinga og lýðræðisríkis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert