Flórída í mál við ríkið vegna skemmtiferðaskipa

Skemmtiferðaskip við höfnina í Miami í Flórída.
Skemmtiferðaskip við höfnina í Miami í Flórída. AFP

Yfirvöld í Flórídaríki í Bandaríkjunum hafa ákveðið að höfða mál gegn Bandaríkjastjórn vegna skemmtiferðaskipa, en ríkið krefst þess að skipin fái að sigla á nýjan leik eftir að hafa legið við akkeri í rúmt ár í tengslum við kórónuveirufaraldurinn.

Repúblikaninn Ron DeSantis, sem er ríkisstjóri Flórída, segir að siglingabannið sem hefur verið í gildi byggist á ólögmætri reglugerð. Flórída treystir mjög á heimsóknir ferðamanna og því mikið í húfi. 

„Við verðum að leyfa skipafélögunum og starfsfólkinu að hefja störf á nýjan leik og sigla örugglega aftur af stað,“ sagði DeSantis í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér. 

Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna fyrirskipaði í mars í fyrra að öllum siglingum skemmtiferðaskipa yrði hætt til að koma í veg fyrir smit og útbreiðslu veirunnar. 

Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída.
Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída. AFP

„Svo það komi skýrt fram, þá heimila engin alríkislög stofnuninni að stöðva heilan iðnað á landsvísu ótímabundið. Þessi málshöfðun er nauðsynleg til að vernda hagsmuni íbúa Flórída gegn yfirgangi ríkisstjórnarinnar og þeim efnahagsskaða sem hefur dunið á ríkið okkar,“ sagði DeSantis ennfremur. Hann hefur verið dyggur stuðningsmaður Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, og þá er talið líklegt að DeSantis muni gefa kost á sér sem forsetaefni Repúblikanaflokksins í framtíðinni. 

Hann hefur verið mjög áfram um að binda enda á allar lokanir sem má rekja til sóttvarnaaðgerða stjórnvalda og þá hefur hann aldrei gert kröfu um grímuskyldu í Flórída. 

Fram kemur í frétt AFP-fréttastofunnar að sérfræðingar telji að málshöfðunin muni ekki hafa erindi sem erfiði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert