Heilbrigðisráðherra Austurríkis útbrunninn

Rudolf Anschober lætur af embætti heilbrigðisráðherra Austurríkis.
Rudolf Anschober lætur af embætti heilbrigðisráðherra Austurríkis. AFP

Heilbrigðisráðherra Austurríkis tilkynnti um afsögn sína í dag og segir ástæðuna vera ofálag vegna kórónuveirufaraldursins. Hann hafi unnið yfir sig og sé gjörsamlega úrvinda.

„Ég hef ákveðið að segja af mér,“ segir Rudolf Anschober, sem hefur fengið líflátshótanir vegna aðgerða stjórnvalda við að stöðva framgang kórónuveirufaraldursins. „Ég hef ofgert mér og er útbrunninn,“ segir Anschober sem ræddi við fréttamenn í dag.

Anschober, sem er sextugur að aldri, hefur gegnt embættinu í 15 mánuði. Hann segir að sér líði eins og það hafi verið 15 ár. Hann varar við því að vanmeta faraldurinn og að honum sé hvergi nærri lokið.  

Hann hefur verið frá vinnu síðan í síðustu viku vegna veikinda og í síðasta mánuði var hann lagður inn á sjúkrahús vegna hjarta- og æðasjúkdóms. Anschober tók sér þriggja mánaða leyfi frá stjórnmálum árið 2012 vegna kulnunar í starfi en hann er þingmaður Græningja. 

Wolfgang Mückstein, læknir og flokksbróðir Anschober, tekur við embættinu. Hann hefur þegar varað við því að hann hiki ekki við að taka óvinsælar ákvarðanir eins og um hertar sóttvarnareglur til þess að bjarga heilsu almennings.

Í Austurríki hafa yfir 581 þúsund smitast af Covid-19 og af þeim eru 9.700 látnir. Alls eru íbúar landsins tæplega níu milljónir. 

Rudolf Anschober.
Rudolf Anschober. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert