Norskur lögmaður skotinn til bana

Lögmaðurinn var skotinn til bana í gærkvöldi.
Lögmaðurinn var skotinn til bana í gærkvöldi. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Kunnur norskur lögmaður, Tor Kjærvik, er sá sem var skotinn til bana í Røa í Ósló í gærkvöldi. Karlmaður á fertugsaldri sem var í haldi lögreglunnar í gær vegna málsins tengist Kjærvik. Hann gaf hann sig fram við lögreglu og er grunaður í málinu.

Lögreglan staðfesti í morgun að Kjærvik hefði verið drepinn, að sögn Verdens Gang.

Það var stuttu eftir klukkan 21 í gærkvöldi sem skotárás var gerð á heimili Kjærvik. Fyrst barst tilkynning um að einn hefði særst en um klukkan 22.30 var greint frá því að sá hinn sami væri látinn.

Kjærvik varð sjötugur fyrir einum mánuði og samkvæmt upplýsingum Verdens Gang hafði hann áform um að minnka við sig í vinnu.

Að sögn yfirlögregluþjónsins Anne Alræk Solem þekktust Kjærvik og hinn grunaði mjög vel.

Heimildir VG herma að maðurinn hefði verið handtekinn skammt frá heimili Kjærvik skömmu eftir árásina og að skammbyssa hafi líklega verið notuð. Lögreglan hefur þegar lagt hald á vopnið sem notað var við verknaðinn.

mbl.is