Segir Noreg sóttvarnaríki

Hans Petter Graver, lagaprófessor við Háskólann í Ósló, segir í …
Hans Petter Graver, lagaprófessor við Háskólann í Ósló, segir í grein sinni í Morgenbladet að Noregur sé orðinn að sóttvarnaríki sem knésett hafi réttarríkið eftir að Stórþingið framseldi vald sitt sérfræðingum heilbrigðisstofnana sem nú taki allar ákvarðanir um sóttvarnir. Telur prófessorinn fyrirkomulagið ekki standast stjórnarskrá. Ljósmynd/Háskólinn í Ósló/Amund Aasbrenn

„Lýðræði snýst ekki eingöngu um hverjir taka ákvarðanirnar, það snýst einnig um lýðræðislega verkferla. Ég er þeirrar skoðunar að núna, meðan heimsfaraldurinn hefur geisað, hafi ákvarðanatakan orðið annars eðlis en við erum vön.“

Þetta sagði Hans Petter Graver, lagaprófessor við Háskólann í Ósló, í þætti norska ríkisútvarpsins NRK, Politisk kvarter, í morgun þar sem hann ræddi þá skoðun sína, sem hann setti fram í grein í norska dagblaðinu Morgenbladet í gær, að Noregur væri orðinn sóttvarnaríki og Stórþingið hefði afsalað sér valdi sínu í hendur sérfræðinga Heilbrigðisstofnunar Noregs og Lýðheilsustofnunar.

Veiran féll í skuggann

„Það tók innan við eitt ár, réttarríkið er ofurselt valdi sóttvarnaríkisins,“ skrifar Graver í grein sinni þar sem hann segir meðal annars að norskt samfélag hafi farið á hvolf þegar faraldurinn gerði strandhögg. Veiran sjálf hefði á örskömmum tíma fallið algerlega í skuggann af stríði yfirvalda gegn henni.

„Heilbrigðisyfirvöld lokuðu samfélaginu að yfirlagðri blessun heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra, þvert á þá kröfu stjórnarskrárinnar að ríkisstjórnin skuli taka mikilvægar ákvarðanir,“ ritar prófessorinn.

Í þætti NRK í morgun ræddi hann það sem hann telur vera framsal Stórþingsins, þjóðkjörinna fulltrúa, til sérfræðinga framangreindra heilbrigðisstofnana sem hann telur allt of víðtækt í ljósi þeirra sóttvarnaráðstafana sem gripið hafi verið til síðasta árið og fái ekki staðist grundvallarlög landsins.

Stjórnarandstaðan „skák og mát“

„Breytingin sem hefur orðið er að þetta hefur fest sig í sessi sem frambúðarfyrirkomulag. Það sjáum við skýrt í áætluninni um enduropnun samfélagsins sem getur teygt sig yfir mjög langt tímabil, ekki síst vegna seinkananna í tengslum við bóluefnið frá Johnson & Johnson. Þar með er þetta [ákvörðunarvald heilbrigðisstofnana] orðið viðvarandi stjórnskipan en ekki þær bráðaaðgerðir sprottnar af neyðarástandi sem við héldum í fyrra að við stæðum frammi fyrir,“ sagði Graver í morgun.

Marit Arnstad, þingflokksformaður Miðflokksins, segir við NRK að hún telji Stórþingið hafa verið til staðar í faraldrinum og vísar til setningar laga um varnir gegn kórónuveirunni sem giltu tímabundið og féllu úr gildi 27. maí í fyrra.

„Í fyrra taldi ég Stórþingið hafa komist að skynsamlegum lausnum með þeim breytingum á lögum og reglum sem gerðar voru. Spurningin er hve ríkulegt svigrúmið sé fyrir skoðanaskipti í tengslum við þennan faraldur þegar maður, sem stjórnarandstöðuþingmaður, stendur frammi fyrir vegg sérfræðistjórnvalda sem segja svona er þetta bara,“ segir Arnstad og bætir því við að stjórnarandstaðan hafi hreinlega verið „skák og mát“ í málefnalegri umræðu um sóttvarnaráðstafanir.

Høie til varnar

Prófessor Graver benti á það í umræðuþættinum í morgun að formleg ákvörðun um að öllu skyldi skellt í lás í Noregi 12. mars í fyrra hefði ekki verið í höndum ríkisstjórnar Noregs, heldur hefði Bjørn Guldvog, forstöðumaður heilbrigðisstofnunar landsins, Helsedirektoratet, tekið þá ákvörðun.

Bent Høie heilbrigðisráðherra tók upp hanskann fyrir stofnanirnar tvær, heilbrigðisstofnun og lýðheilsustofnun, þegar NRK innti hann álits og kvað það úrslitaatriði, þegar neyð steðjaði að, að ákvarðanir væru teknar fljótt.

„Ég er þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt að við höfum virkt stjórnvald sem er í stakk búið til að taka mikilvægar ákvarðanir um veiruvarnir þegar neyðarástand ríkir. Um þetta getum við tekið ítarlega umræðu þegar skýrslan kemur frá nefndinni sem vafalítið fer ofan í saumana á þessu. Það mikilvægasta er að við drögum ekki úr getu okkar til skjótra ákvarðana,“ sagði Høie við NRK.

Nefndin sem hann vísar til er koronakommisjonen svokallaða sem Erna Solberg forsætisráðherra skipaði í apríl í fyrra og ætlað er að gera ítarlega úttekt á viðbrögðum norskra stjórnvalda við kórónuveirufaraldrinum. Leggur nefndin skýrslu sína fram í dag.

Grein Graver í Morgenbladet

NRK

Politisk kvarter á NRK í morgun

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert