Brexit-babb í norskan bát

Glænýir Volkswagen ID.4 SUV-rafmagnsbílar tilbúnir til afhendingar við umboðið í …
Glænýir Volkswagen ID.4 SUV-rafmagnsbílar tilbúnir til afhendingar við umboðið í Wolfsburg í Norður-Þýskalandi í lok mars. Stjórnendur VW hafa lýst því yfir að þeir hyggist ráða lögum og lofum á rafbílamarkaðnum árið 2025 og Norðmenn leggja á ráðin um stórvirkar rafhlöðuverksmiðjur í krafti vatns, rafmagns og kulda. Svo fór einhver að lesa smáa letrið í Brexit-samningnum. AFP

Undanfarin misseri hefur fjöldi norskra sveitarfélaga keppst við að gera hosur sínar grænar fyrir erlendum framleiðendum lithium-ion-rafhlaðna í rafknúnar bifreiðar í takt við yfirstandandi og væntanleg orkuskipti heimsbyggðarinnar. Ódýrt rafmagn, oftast kalt í veðri og enginn hörgull á vatni eru aðstæður sem skapa risastórum rafhlöðuverksmiðjum hreint kjörlendi.

Í janúar birti norska ríkisútvarpið NRK lista yfir 49 sveitarfélög í níu norskum fylkjum sem brugðist höfðu við sameiginlegu kalli norska raforkuframleiðandans Hydro, ríkisolíufyrirtækisins Equinor (áður Statoil) og japanska tæknirisans Panasonic eftir hentugu svæði til að reisa rafhlöðuverksmiðju.

Og ekki bara eina. Reiknað er með að framkvæmdir hefjist á næsta ári í Mo i Rana við gríðarmikla verksmiðju, reyndar fjórar verksmiðjur, Freyr Battery Norway sem reiknað er með að muni meðal annars framleiða rafhlöður í 800.000 rafmagnsbíla á ári frá og með 2025 og vera vinnustaður 1.500 manns undir stjórn Japanans Ryuta Kawaguchi, þess hins sama og leiddi verkfræðingateymið sem hristi rafhlöðuna í Nissan Leaf fram úr ermum sér. Hjá Frey stendur þó einnig til að framleiða rafhlöður til nota í sjávarútvegi.

Svona lítur hann út, maðurinn á bak við rafhlöðuna í …
Svona lítur hann út, maðurinn á bak við rafhlöðuna í Nissan Leaf-rafmagnsbílnum japanska. Ryuta Kawaguchi mun stjórna rafhlöðuverksmiðjunum sem áætlað er að verði starfhæfar í Mo i Rana í Noregi árið 2025. Hann þarf að ráða 1.500 manns en finnur engan í Evrópu sem uppfyllir hæfniskröfur. Ljósmynd/Freyr Battery Norway

Helsti höfuðverkur Kawaguchi er að hans sögn að hann mun líklega þurfa að ráða til sín mörg hundruð manns frá Asíu þar sem þekkingin sem starfsemi hans krefst fyrirfinnst ekki á Norðurlöndunum – og reyndar ekki í allri Evrópu sé að marka nýlegt viðtal hans við NRK. Ráðningarmálin teljast þó hreinir smámunir við hliðina á ofurverðmætum framtíðarsamningum um kaup stórra þýskra bifreiðaframleiðenda á borð við Volkswagen á rafhlöðum í hinn græna rafmagnsflota 21. aldarinnar.

Rýnt í smáa letrið

Óveðursskýin tóku hins vegar að hrannast upp á himni þessarar iðnvæddu framtíðarsýnar þegar glöggir menn innan vébanda norsku vinnuveitendasamtakanna NHO tóku að rýna í samning Breta og Evrópusambandsins í kjölfar Brexit-útgöngunnar frægu.

Þar stendur skýrum stöfum, þótt enginn hafi tekið eftir því í Noregi fyrr en seint og um síðir, að rafmagnsbílar, sem framleiddir eru í ríkjum ESB, en með rafhlöðum framleiddum í Noregi, sem ekki tilheyrir sambandinu, muni bera tíu prósenta toll við innflutning til Bretlands auk þess sem sami tollur gildi í hina áttina, á breskum rafmagnsbílum með norskum rafhlöðum. Að öðru leyti sé verslun með rafmagnsbíla tollfrjáls í báðar áttir milli Bretlands og ESB samkvæmt samningnum.

„Í versta falli getur þetta haft í för með sér að ekkert verður af þessum umsvifum sem við erum að leggja á ráðin um,“ segir Ole Erik Almlid, forstöðumaður NHO, í samtali við NRK. Þar með geti allt að 20.000 framtíðarstörf verið í hættu, að sögn forstöðumannsins, en gert hefur verið ráð fyrir að rafhlöðuframleiðslan skapi árið 2030 verðmæti sem nemur 90 milljörðum norskra króna á ári, jafnvirði tæplega 1.400 milljarða íslenskra króna.

Svona mun ein af verksmiðjunum fjórum í Mo i Rana …
Svona mun ein af verksmiðjunum fjórum í Mo i Rana líta út. Þær munu ráða við að framleiða rafhlöður í 800.000 rafmagnsbíla á ári en munu einnig framleiða meðal annars rafhlöður til notkunar í sjávarútvegi. Ljósmynd/Freyr Battery Norway

Almlid gerir þann fyrirvara að rafhlöðuverksmiðjur framtíðarinnar muni framleiða rafhlöður fyrir allt mögulegt annað en bíla, en engu að síður veldur þessi nýuppgötvaða samningsklásúla óneitanlega nokkrum glímuskjálfta. Í raun sé aðeins eitt til ráða.

„Mín skilaboð til ríkisstjórnarinnar eru að nú þarf að setja í gang vinnu á efstu hæðum,“ på toppnivå eins og hann orðar það, „við að þrýsta á Breta og Evrópusambandið um að leysa þetta.“ Almlid vill hreinlega breyta Brexit-samningnum sem Boris Johnson og Ursula von der Leyen sátu sveitt yfir fram til 30. desember í fyrra.

Tók enginn eftir þessu fyrr?

Enginn virðist vita almennilega hvenær farið var að reka augu í rafhlöðutollinn en Iselin Nybø, viðskiptaráðherra Noregs, fundaði í gær með felmtri slegnum fulltrúum norskra rafhlöðuframleiðenda. Vandamálið var einfalt, stóru þýsku bifreiðaframleiðendurnir yrðu einfaldlega ekkert yfir sig hrifnir af stórum samningum við stórar – og rándýrar – norskar rafhlöðuverksmiðjur með breska markaðinn á bak við nýjan tollmúr.

„Það gefur auga leið að einfaldara og ódýrara verður að velja rafhlöður frá öðrum löndum en Noregi,“ segir viðskiptaráðherra við NRK. „Þess vegna einblínum við nú á að bretta upp ermarnar og fara að vinna að lausn gegnum þær leiðir sem okkur eru tiltækar.“

Hefðu norsk stjórnvöld ekki átt að lesa smáa letrið örlítið betur og fyrr? spyr ríkisútvarpið.

„Noregur var ekki aðili að þessum samningaviðræðum. Þetta er samningur milli Breta og ESB,“ svarar ráðherra og utanríkisráðherrann Ine Eriksen Søreide tekur undir með henni um þennan samning upp á 1.700 blaðsíður. „Þessar upplýsingar hafa verið að koma fram í skrefum eftir því sem afleiðingarnar hafa farið að verða ljósari,“ segir Søreide og bendir á að nýi tollurinn verði ekki afnuminn á einni nóttu, það taki líkast til mánuði.

„Einfaldlega vegna þess að ef Bretland og ESB ætla að fara að gera breytingar á þessu atriði gætu þær haft áhrif á aðra hluta samningsins sem þá þyrfti líka að breyta og það tekur tíma,“ segir hún.

Meginrök Noregs fyrir breytingum verða þau að nýi tollurinn brjóti gegn samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, EES, auk þess sem umfangsmikil rafhlöðuframleiðsla Noregs verði einfaldlega vatn á myllu grænu byltingarinnar í heiminum sem svo miklar vonir eru nú bundnar við í hamfarahlýnuninni.

„Við leggjumst á árarnar með þau rök sem við höfum,“ svarar utanríkisráðherra þegar NRK spyr hana að lokum hvort hún sé bjartsýn á að bjarga megi nýjasta norska atvinnuveginum.

NRK

NRKII (vantar 1.500 starfsmenn)

NRKIII (sveitarfélög í röðum)

Teknisk Ukeblad

mbl.is