Líklegt að þörf sé á þriðja skammti af Pfizer

Albert Bourla, forstjóri Pfizer, segir líklegt að þörf sé á …
Albert Bourla, forstjóri Pfizer, segir líklegt að þörf sé á þriðja skammti af bóluefninu til þess að tryggja vörn gegn Covid-19-sjúkdómnum. AFP

Forstjóri Pfizer, Albert Bourla, segir líklegt að þörf sé á að bólusetja fólk með þriðja skammtinum af bóluefni Pfizer. Eins sé sennilegt að fólk muni þurfa á nýjum bóluefnaskammti að halda árlega, til að tryggja vörn gegn Covid-19-sjúkdómnum.

Slíkt fari þó alfarið eftir því hvort og hvaða nýju afbrigði veirunnar nái útbreiðslu, að því er fréttastofa CNBC greinir frá.

Afbrigðin leiki stórt hlutverk

„Við gætum séð fram á að þörf verði á þriðja skammti um það bil tólf mánuðum eftir seinasta skammt, jafnvel árlegri bólusetningu. Þetta er allt eitthvað sem þarf að skoða. Og auðvitað leika afbrigðin stórt hlutverk í þessu öllu saman,“ sagði hann í samtali við fréttastofuna þann 1. apríl en fyrst var greint frá ummælunum í dag.

„Það er gríðarlega mikilvægt að ná tökum á þeim hópi sem er berskjaldaður fyrir smiti,“ sagði hann.

Forstjóri Johnson & Johnson, Alex Gorsky, sagði þá í samtali við fréttastofuna í febrúar að líkur væru á því að bólusetningar við veirunni þurfi að fara fram árlega, rétt eins og raunin er með inflúensusprautur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert