Þrír látnir í Danmörku eftir að hafa innbyrt HUSK

Margir hafa smitast af salmonellu í Danmörku.
Margir hafa smitast af salmonellu í Danmörku. Mynd/Statens Serum Institut

Þrír eru látnir í Danmörku eftir að hafa smitast af salmonellu. Auk þess hafa 19 verið lagðir inn á sjúkrahús og 33 sýna einkenni veikinda.

Allir eiga það sameiginlegt að hafa innbyrt náttúrulækningalyfið HUSK sem á að auka þarmahreyfingar og er notað sem hægðalosandi efni og til að tryggja reglulegar hægðir.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef sóttvarnastofnunar Danmerkur (Statens Serums Institut) sem birt var í dag.

Þar segir að salmonella hafi uppgötvast í HUSK Psyllium-fræjum sem framleidd eru í töfluformi af Orkla Care A/S og hefur framleiðandinn innkallað fjölda vara vegna þessa. Biðla dönsk yfirvöld til almennings í Danmörku að athuga hvort einhverjar HUSK-vörur séu á heimilum þeirra.

Alvarlegt

„Þetta er alvarlegt og margir veikir þar sem fólk er bæði á sjúkrahúsi og látið. Þess vegna viljum við hvetja alla sem eiga HUSK-vörur heima til að athuga hvort þeir séu með einhverjar af þeim vörum sem verða fyrir áhrifum,“ segir faraldsfræðingurinn Luise Müller hjá dönsku sóttvarnastofnuninni.

Helsta smitleið salmonellu er með menguðum matvælum, að því er fram kemur á vef embættis landlæknis. Þá eru einkenni smits niðurgangur, ógleði, uppköst, kviðverkir og hiti sem í flestum tilfellum gengur yfir á fjórum til fimm dögum.

„Ef sýkingin hefur dreift sér til líffæra utan meltingarfæra geta komið einkenni frá sýkingarstað.“

Uppfært:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert