Danir komast á barinn strax í næstu viku

Danir hafa þurft að láta sér nægja að sitja utandyra …
Danir hafa þurft að láta sér nægja að sitja utandyra með mat og drykk í lengri tíma, sem er þó vart hægt að kvarta yfir þegar vorveðrið lætur að sér kveða. AFP

Fundur danska þingsins stóð langt fram eftir í gærkvöldi, en samstaða náðist að lokum um að flýta afléttingu takmarkana í samfélaginu umtalsvert.

Dönsk stjórnvöld birtu upphaflega áætlun um enduropnun samfélagsins í lok mars og hingað til hafa tiltölulega lítil skref verið tekin á tveggja vikna fresti. Sérfræðingar telja hins vegar óhætt að ganga rösklegar til verks þar sem smitfjöldi hafi staðið í stað.

Þá er ljóst að danska þjóðin er orðin ansi langeygð eftir frekari opnun, en svo dæmi séu nefnd hefur ekki verið leyfilegt að neyta matar eða drykkja á kaffi- eða veitingahúsum í rúmlega fjóra mánuði.

Danir geta þó tekið gleði sína á ný, því meðal helstu breytinga sem gerðar voru á enduropnunaráætluninni á danska þinginu í gær eru miklar tilslakanir á börum, kaffi- og veitingahúsum strax í næstu viku. Til stóð að frá og með næsta miðvikudegi, 21. apríl, mætti þjóna til borðs á útisvæðum við bari, veitinga- og kaffihús, með því skilyrði að gestir sýndu fram á neikvætt kórónuveirupróf ekki eldra en 72 klukkustunda. Þá átti hið sama að taka gildi um þjónustu innanhúss frá og með 6. maí.

Tívolí opnaði fyrir páska.
Tívolí opnaði fyrir páska. AFP

Rekstraraðilar voru ekki sérlega sáttir við fyrirkomulagið og beittu sér fyrir breytingum og fengu í gegn, en frá og með næstu viku mega veitinga- og kaffihús þjónusta viðskiptavini bæði úti og inni. Þjónusta utandyra verður engum takmörkunum háð, en til þess að fá þjónustu innandyra verða gestir að panta borð fyrir fram og sýna fram á neikvætt kórónuveirupróf. Leyfilegt verður að selja áfengi til klukkan 22 á kvöldin og hafa opið til klukkan 23.

Hróarskelda?

Meðal annarra breytinga sem gerðar verða á samkomutakmörkunum 21. apríl eru fjölgun þeirra sem koma mega saman bæði innan- og utandyra, eða 10 inni og 50 úti. Samkomutakmarkanir innan- og utandyra munu svo halda áfram að fylgja hvort sinni áætluninni sem er eftirfarandi: innandyra mega 25 koma saman frá 6. maí, 50 frá 21. maí og 100 frá 11. júní.

Utandyra mega 75 koma saman frá 6. maí, 100 frá 21. maí og loks er ráðgert að samkomur utandyra verði engum takmörkunum háðar eftir 11. júní, sem gefur ákveðnar vonir um að hægt verði að halda útihátíðir á borð við Hróarskelduhátíðina sem fara á fram í lok júní.

Frétt DR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert