Stórfelld fjársvik augnlæknis

Jens Kratholm, norskur augnlæknir sem sviptur var leyfi sínu í …
Jens Kratholm, norskur augnlæknir sem sviptur var leyfi sínu í fyrrasumar, er ákærður fyrir að hafa svikið allt að 12 milljónir norskra króna út úr sjúklingum sínum í samtals 32.000 tilfellum. AFP

„Þetta er umfangsmikið og krefjandi verkefni,“ segir norski lögmaðurinn Lina Therese Remlo í samtali við norska ríkisútvarpið NRK og virðist þar hafa lög að mæla. Hennar bíður hlutverk réttargæslulögmanns fyrir hóp sem enn er ekki ljóst hve stór er í raun, en þar eru á ferð meint fórnarlömb í Kratholm-málinu svokallaða sem stendur fyrir dyrum í haust í Héraðsdómi Ofoten í Nordland-fylki.

Þar er augnlækninum fyrrverandi, Jens Kratholm, gefið að sök að hafa svikið samtals tólf milljónir norskra króna, jafnvirði rúmlega 181 milljónar íslenskra, út úr sjúklingum sínum í samtals 32.000 tilfellum með því að hækka greiðsluhluta sjúklings af læknisþjónustunni og stinga mismuninum í eigin vasa auk þess að rukka sjúklinga fyrir vörur og þjónustu sem aldrei var látið í té.

Rannsókn málsins nær mörg ár aftur í tímann, en það var árið 2017 sem Helse Nord, rekstraraðili sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana í Norður-Noregi, kærði Kratholm til lögreglu vegna grunsemda um að hann hefði haft fé af sjúklingum sínum um allt að fimm ára skeið.

Útbjó vefviðmót fyrir sjúklingana

Lauk rannsókninni ekki fyrr en í desember í fyrra og var ákæra gefin út skömmu fyrir jól. Remlo lögmaður hefur sem fyrr segir ekki hugmynd um hve mörg fórnarlömb augnlæknisins eru, en segir það gefa auga leið að þar geti verið um alla sjúklinga hans frá 2012 til 2018 að ræða, en Kratholm var að lokum sviptur leyfi sínu í júní í fyrra vegna ófullnægjandi sóttvarna á stofu hans sem leiddu til alvarlegra augnsýkinga fjölda sjúklinga hans.

Hefur lögmaðurinn útbúið sérstakt vefviðmót svo sjúklingar Kratholm, sem telja sig hafa verið hlunnfarna í viðskiptum sínum við hann, geti haft samband og gert grein fyrir sínum málum. „Það er mikilvægt að þeir sem misgert hefur verið við fái tækifæri til að koma sínum kröfum að fyrir dómi. Mitt hlutverk er að vera þessu fólki innan handar,“ segir Remlo og kveður upphæðirnar nema frá nokkur hundruð krónum upp í nokkur þúsund á hvern sjúkling.

Audhild Jensen er í hópi 25 sjúklinga sem lögreglan yfirheyrði við rannsókn umsvifa Kratholm auk þess sem hún kom fram í Brennpunkt, rannsóknarfréttaþætti NRK, í þætti sem kallaðist Pengespesialistene, eða Peningasérfræðingarnir, þar sem rannsakendur þáttarins skoðuðu „peningastrauminn til norskra sérfræðilækna“, meðal annars mál barnalæknis í Suður-Noregi, sem virtist hafa aðgang að botnlausum peningahyl hins opinbera, og umsvif Kratholm augnlæknis.

„Ég er ánægð. Hefði ég ekki gert eitthvað í þessu hefði augnlæknirinn haldið uppteknum hætti,“ segir Jensen sem mátti punga út 5.000 krónum, rúmlega 75.000 íslenskum, sem hennar hluta, hluta sjúklings eins og það heitir, af verði augasteinsaðgerðar en eigin hluti við slíkar aðgerðir var 602 norskar krónur á hvort auga 1. október 2020.

Ekkert gerðist í fyrstu

Jensen hafði samband við sjúkratryggingar, Helse Nord og umboðsmann sjúklinga án þess að nokkuð gerðist í málinu. Það var ekki fyrr en nær tveimur árum síðar sem Helse Nord hafði samband við hana og bað um hennar samþykki fyrir kæru á hendur Kratholm. Eftir það fóru hjólin að snúast.

Verjandi Kratholm, Tor Strand, segir við NRK að skjólstæðingur hans hafi ekkert til saka unnið gagnvart sjúklingunum. „Varnarhliðin heldur því fram að allar greiðslur sjúklinganna séu innan marka verðskrár sérfræðilækna og reglugerðar um kostnað við rannsókn og meðferð lækna. Jens Kratholm hefur þar með ekki látið sjúklinga sína greiða of mikið.“

NRK

NRKII (ákæra gefin út)

E24

mbl.is