Viðræður hefjast að nýju í Vín

Viðræðurnar fara fram á Grand-hótelinu í Vínarborg, sem stendur við …
Viðræðurnar fara fram á Grand-hótelinu í Vínarborg, sem stendur við Kärntner Ring, skammt frá ríkisóperunni. AFP

Viðræður um kjarnorkuáætlun Írana, sem eiga að miða að því að virkja aftur álíka samkomulag og náðist árið 2015, hefjast að nýju í Vín í dag. Stjórnvöld í Teheran greindu frá því í gær að þau hefðu hafið auðgun úrans þannig að það næði 60% hreinleika.

Ríkið, sem kallar sig íslamskt lýðveldi, tilkynnti áform um stóraukna auðgun úrans fyrr í vikunni eftir árás sem gerð var á kjarnorkustöðina Natanz. Hefur Íran kennt Ísrael um árásina.

Þessi þróun varpar skugga á viðræðurnar í Vín, sem eiga að endurvekja samkomulagið sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna, John Kerry, náði að koma á árið 2015. Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti lét það niður falla fyrir nærri þremur árum.

Yfirvöldum Írans hefur verið mótmælt fyrir utan hótelið.
Yfirvöldum Írans hefur verið mótmælt fyrir utan hótelið. AFP

Hvaða þvingunum á að aflétta

Að viðræðuborðinu í dag munu koma fulltrúar Evrópusambandsins og Bretlands, Kína, Frakklands, Þýskalands, Rússlands og Írans.

Skera á úr um hvaða þvingunum Bandaríkin eiga að aflétta og hvað Íran þurfi að gera til að standast aftur skilmála samkomulagsins.

Sendiherra Rússlands í Vín, Mikhaíl Úljanov, segir á Twitter að viðræðunum vindi hægt en stöðugt fram á við.

mbl.is