Biðst afsökunar á morðinu á Louis Mountbatten

Louis Mountbatten fyrir miðju.
Louis Mountbatten fyrir miðju. Wikipedia/Bandaríkjaher

Leiðtogi írska stjórnmálaflokksins Sinn Fein, sem eitt sinn var stjórnmálaarmur írska lýðveldishersins (e. IRA), baðst í dag afsökunar á morði hópsins á Louis Mountbatten, frænda Filippusar hertoga af Edinborg sem borinn var til grafar í gær. 

Írski lýðveldisherinn myrti Louis, sem oft var kallaður Dickie, árið 1979. Þá höfðu áratugalangar deilur staðið yfir milli breskra yfirvalda og írskra lýðveldissinna. Dickie var náinn bresku konungsfjölskyldunni, ekki síst Filippusi og Karli Bretaprinsi. 

Afsökunarbeiðni Mary Lou McDonald, leiðtoga Sinn Fein, kemur í kjölfar útfarar Filippusar sem lést 99 ára að aldri 9. apríl. 

„Að sjálfsögðu þykir mér fyrir því sem gerðist, að sjálfsögðu er þetta sorglegt. Það gleður mig að endurtaka það helgina sem drottningin ykkar jarðaði ástkæran eiginmann sinn,“ sagði McDonald. 

Þrír aðrir létust í sprengju sem varð Mountbatten að bana og komið hafði verið fyrir á báti hans á Írlandi. Á meðal hinna látnu var 14 ára barnabarn Mountbattens og annar 15 ára drengur. 

Aldrei áður hefur stjórnmálamaður úr röðum írskra lýðveldissinna beðist afsökunar á sprengingunni. Forveri McDonald, Gerry Adams, sagði á sínum tíma að Mountbatten hefði verið réttlætanlegt skotmark í lýðveldisbaráttunni.

mbl.is