Boða samstarf á sviði loftslagsmála

John Kerry.
John Kerry. AFP

Yfirvöld í Kína og Bandaríkjunum segjast vilja vinna saman ásamt fleiri löndum til að stemma stigu við hamfararhlýnun. 

Xie Zhenhua, yfirmaður loftslagsmála í Kína, og bandarískur kollegi hans John Kerry funduðu ítrekað í síðustu viku. Báðir embættismenn voru sammála um frekari aðgerðir til að draga úr losun koltvísýrings. 

Joe Biden Bandaríkjaforseti mun í vikunni halda stafrænan leiðtogafund um loftslagsmál, sem kínversk yfirvöld segjast spennt fyrir. Það liggur þó ekki fyrir hvort Xi Jinping forseti Kína muni sjálfur vera á fundinum. 

„Bandaríkin og Kína eru tilbúin til að starfa saman ásamt fleiri þjóðum til að takast á við loftslagskrísuna, sem verður að stemma stigu við með þeirri áherslu sem málið krefst,“ segir í yfirlýsingu á vef bandarískra stjórnvalda

Þá segir í yfirlýsingunni að Kína og Bandaríkin muni halda áfram að ræða afgerandi aðgerðir fyrir áratuginn til að draga úr losun með það að markmiði að halda hitastigi innan þeirra marka sem Parísarsáttmálinn tilgreinir. 

Þá hafa báðar þjóðir sammælst um fjárhagsaðstoð til handa fátækari ríkjum vegna orkuskipta. 

Í aðdraganda ferðarinnar til Kína sagði Kerry í viðtali við CNN að það væri „algjörlega nauðsynlegt“ að tryggja samstarf við Kínverja á sviði loftslagsmála. 

„Já, við erum ósammála Kína í nokkrum lykilatriðum, en loftslag verður að vera á sér stalli,“ sagði Kerry. 

mbl.is

Bloggað um fréttina