Í Færeyjum er lífið næstum eðlilegt

Frá Ólafsvöku fyrir allnokkrum árum. Hinar ýmsu útihátíðir eru snar …
Frá Ólafsvöku fyrir allnokkrum árum. Hinar ýmsu útihátíðir eru snar þáttur í sumrinu í Færeyjum og vonast menn til að hægt verði að halda þær í sem eðlilegastri mynd í sumar. mbl.is/RAX

Ekkert innanlandssmit kórónuveirunnar hefur greinst í Færeyjum í meira en mánuð. Fyrir vikið búa Færeyingar við sem næst eðlilegt líf; flestallt er opið og allt að 500 manns mega koma saman. Landsmenn gera sér vonir um að hægt verði að halda enn fjölmennari hátíðir í sumar.

Færeyjar eru ekki á korti Evrópsku sóttvarnastofnunarinnar, enda ekki í EES, en ef þær væru það væru þær æpandi grænar.

Íslendingar í Færeyjum, sem mbl.is hefur rætt við, eru að vonum ánægðir með stöðuna, en óska þess að þeir nytu góðs af því á Íslandi. Ekki hefur verið flogið milli Íslands og Færeyja síðan í haust eða síðan reglur um tvöfalda sýnatöku á landamærunum og 4-6 daga sóttkí tóku gildi.

„Það eru engir Færeyingar sem ferðast til Íslands til að taka sex daga sóttkví á Íslandi,“ segir Sólrún Ásta Haraldsdóttir. Því hafi ekki verið rekstrargrundvöllur fyrir Íslandsfluginu og þeir Íslendingar sem vilja ferðast heim þurfa annaðhvort að fljúga gegnum Danmörku eða taka Norrænu með tilheyrandi tíma og kostnaði. Að ógleymdri sóttkvínni.

„Við erum orðin dálítið pirruð á öllum túristunum sem eru heima að sjá eldgosið á meðan við komumst ekki nema í gegnum Danmörku,“ segir Sólrún, sem hefur búið í Færeyjum í sjö ár, en hún hefur ekki farið til Íslands síðan jólin 2019. Hún segir mikla umræðu meðal Íslendingasamfélagsins í landinu um hvort ekki sé hægt að veita Færeyjum undanþágu vegna góðrar stöðu.

Það horfir þó til betri vegar fyrir Íslendinga í Færeyjum því að óbreyttu verður sérstakt litakóðunarkerfi tekið upp á landamærunum 1. maí og verða farþegar frá „grænum löndum“ þá undanþegnir sóttkví. Sú breyting hefur þó mælst misvel fyrir.

Sótt­varn­a­regl­ur sem gilda munu fyr­ir ólík lönd frá 1. maí, …
Sótt­varn­a­regl­ur sem gilda munu fyr­ir ólík lönd frá 1. maí, að öllu óbreyttu. Skjáskot/Stjórnarráðið

Eitt andlát

Aðeins hafa 662 smit greinst í eyjunum frá því faraldurinn hófst, sem er nokkru minna en á Íslandi miðað við höfðatölu. Og það sem meira er; aðeins einn hefur látist af völdum veirunnar.

Rétt eins og á Íslandi þarf fólk við komuna til landsins að fara í um fimm daga sóttkví, með skimun í upphafi og lok sóttkvíar.

Þó er hugsanlegt að Færeyingar fylgi reglunum betur, segir Elías Kristinn Sæmundsson. Elías, sem er sjómaður, hefur búið í Færeyjum í fimm ár ásamt færeyskri konu sinni. „Þetta er svo lítið samfélag. Það treysta allir hver öðrum.“ 

Sólrún hefur búið í Færeyjum í sjö ár og starfar sem iðjuþjálfi á hjúkrunarheimilum í Klaksvík, næststærsta bæ Færeyja. Sólrún segir að ótrúlega vel hafi gengið að vernda viðkvæmustu hópa samfélagsins. Þannig hafi ekkert smit komið upp meðal íbúa á hjúkrunarheimilum í eyjunum. „Nokkrir starfsmenn hafa smitast, en það hefur ekki náð að smita út frá sér til heimilisfólks,“ segir hún. Mikið hefur enda verið lagt upp úr sýnatökum, og á hjúkrunarheimilunum þar sem hún starfar fóru flestir starfsmenn í sýnatöku í hverri viku þar til bólusetningum lauk.

mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert