Helmingur Bandaríkjamanna fengið bólusetningu

Anthony Fauci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna, með forláta taugrímu á fundi í …
Anthony Fauci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna, með forláta taugrímu á fundi í Hvíta húsinu á fimmtudag. AFP

Helmingur fullorðinna Bandaríkjamanna hefur fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni gegn kórónuveirunni. Þetta tilkynntu stjórnvöld í dag.

Alls eru það um 130 milljónir manna. Þar af hafa 84 milljónir, eða 32,5% fullorðinna, verið fullbólusettar. Ef frá eru talin örríki hefur bólusetning aðeins gengið hraðar í Ísrael, Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Síle og Bretlandi samkvæmt gögnum frá Our World in Data, alþjóðlegum gagnabanka.

Til samanburðar hafa ríflega 70 þúsund Íslendingar fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni, eða sem nemur um 27% af fullorðnum í landinu. Þar af eru um 28.600 fullbólusettir, ríflega 11% fullorðinna.

Í frétt fréttaveitunnar AP segir að stjórnvalda í Bandaríkjunum bíði nú það verkefni að sannfæra þann hluta þjóðarinnar sem er síður áfjáður í að láta bólusetja sig. Nokkur munur er á bólusetningarhlutföllum eftir ríkjum. Hæst er hlutfall bólusettra í ríkjum sem jafnan kjósa Demókrataflokkinn, New Hampshirere (71,7%), Nýju-Mexíkó, Connecticut, Massachusetts og Maine. Lægst er hlutfallið í Tennesse, 40,8%, og þar á eftir í Louisiana, Alabama og Mississippi.

Hlutfall þeirra Bandaríkjamanna sem segjast vilja þiggja bóluefni hefur aukist nokkuð síðustu mánuði. Í könnun í janúar sögðust 67% landsmanna hafa áhuga á því, en samkvæmt nýlegri könnun AP-NORC var hlutfallið komið upp í 75%.

mbl.is

Bloggað um fréttina