Hneig niður í teiti og lést

Allt er á huldu um aðdraganda þess að Preben Edvartsen …
Allt er á huldu um aðdraganda þess að Preben Edvartsen fannst liggjandi með áverka, sem síðar drógu hann til dauða, í teiti í Selfors í Mo i Rana aðfaranótt 11. apríl. Ljósmynd/Úr einkasafni

Lögreglan í Nordland í Noregi hefur óskað eftir hugsanlegum símamyndskeiðum viðstaddra af því þegar Preben Edvartsen, tvítugur maður, féll til jarðar og missti meðvitund í teiti í heimahúsi í bænum Selfors í Mo i Rana aðfaranótt sunnudagsins 11. apríl. Edvartsen lést á Háskólasjúkrahúsi Norður-Noregs fjórum dögum síðar.

Viðstaddir hringdu í neyðarlínuna og tilkynntu um meðvitundarlausan mann á staðnum. Var Edvartsen með áverka þegar að honum var komið, án þess að tekist hafi að draga fram í dagsljósið hvað kom fyrir hann, en niðurstöðu krufningar er nú beðið.

Að sögn Andreas Haldorsen, lögreglufulltrúa í Nordland, hefur lögreglan enn sem komið er enga vitneskju um hver dánarorsök Edvartsen var og hefur sent frá sér myndskeið á samfélagsmiðla þar sem Haldorsen sjálfur óskar eftir því að gestir í veislunni leggi lögreglu lið með því að kanna hvort þeir hafi hugsanlega myndskeið í símum sínum af einhverju sem varpað gæti ljósi á hvað gerðist um það leyti sem Edvartsen féll til jarðar.

Ekki rannsakað sem sakamál

„Ekki er útilokað að þarna hafi orðið slys,“ segir Haldorsen og kveður lögregluna ekki rannsaka málið undir þeim formerkjum að nokkuð saknæmt hafi átt sér stað. Læknar hafi enn sem komið er ekki getað varpað ljósi á dánarorsök en reiknað sé með að hún verði kunngjörð með niðurstöðu krufningar.

Lögregla hefur tekið skýrslur af þeim sem komu að Edvartsen og fleirum sem voru á vettvangi án þess að þar hafi nokkuð haldbært komið fram. „Nú bíðum við bara eftir krufningarskýrslunni,“ segir Haldorsen og bætir því við að engin myndskeið hafi enn komið fram sem varpi nokkru ljósi á andlátið voveiflega.

NRK

Rana Blad

Helgelendingen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert