Keyrðu bjórinn út í leigubílum

„Þetta er Torgrim Jankila, hann er framleiðslustjórinn okkar,“ segir Didriksen …
„Þetta er Torgrim Jankila, hann er framleiðslustjórinn okkar,“ segir Didriksen brugghússtjóri um þessa mynd þar sem Jankila stendur yfir framleiðslu mjaðarins í gömlu sláturhúsi í Vadsø sem þeir félagar breyttu í brugghús árið 2018. Ljósmynd/Aðsend

Stian Feldt Didriksen og félagar hans þrír sem eiga og reka smábrugghúsið Qvænbrygg í Vadsø í Finnmörk, einni af nyrstu byggðum Noregs, létu ekki deigan síga þegar stjórnvöld lokuðu flestum dyrum atvinnulífsins í veirufaraldrinum heldur tóku upp heimsendingu á framleiðslu sinni sem naut svo mikilla vinsælda í fyrra að þeir fjórmenningarnir þurftu að bretta upp ermarnar og brugga 16.000 lítra, tvöföldun úr um 8.000 framleiddum lítrum árið 2019.

„Þetta fór að verða ansi tvísýnt þegar kórónuveiran var búin að loka hjá öllum okkar viðskiptavinum í veitingabransanum,“ segir Didriksen í samtali við mbl.is, en auk hans eru það þeir Ole Kristian Gaski, Kåre Pettersen og Torgrim Jankila sem standa að Qvænbrygg.

Þar sem þeir ráku engan eigin útsölustað fyrir bjórtegundirnar sínar sex, sem heita einfaldlega númerum, Qvænbrygg #1, #2 og svo framvegis, stöðvaðist salan nánast á einni nóttu þegar veitingastaðirnir í Vadsø hættu að panta, enda þeir allir lokaðir.

Opnuðu sölustað í miðbænum

„Í mars í fyrra hófum við þess vegna heimsendingu á bjór, nokkuð sem okkur hafði ekki dottið í hug að reyna áður,“ segir bruggstjórinn frá. Þessi nýja nálgun þeirra við markaðinn reyndist þó heldur betur kærkomin og höfðu fjórmenningarnir brátt meira en nóg að gera við framleiðslu og útkeyrslu. „Á tímabili vorum við farnir að keyra bjórinn út í leigubílum,“ segir Didriksen og hlær, en þeir félagar stefna á að færa framleiðsluna upp í 30.000 lítra árið 2021, hvað sem öllum farsóttum líður.

Þegar heimsending var orðin eina söluúrræðið eftir að veitingastaðir í …
Þegar heimsending var orðin eina söluúrræðið eftir að veitingastaðir í Vadsø lokuðu dyrum sínum í faraldrinum opnuðu fjórmenningarnir litla verslun í miðbænum seint á síðasta ári þar sem þeir selja bjór sinn en einnig kjöt og osta. Menn deyja ekki ráðalausir norður í Finnmörk. Ljósmynd/Aðsend

„Sem betur fer hefur ekki verið svo mikið um smit hérna fyrir norðan svo fólk hefur verið duglegt að fara út að versla í sínum heimabyggðum. Þegar við opnuðum lítinn sölustað hérna í miðbænum í Vadsø seint í fyrra var því mjög vel tekið,“ segir Didriksen sem nú er loks kominn með eigin verslun, að minnsta kosti þar til veitingastaðirnir fara að kaupa af þeim á nýjan leik.

Ekki er annað hægt en að spyrja út í þetta forvitnilega nafn, Qvænbrygg.

„Nafnið drögum við af Kvenum sem hingað fluttust frá Finnlandi fyrir löngu,“ svarar Didriksen og vísar til þjóðflokks af finnskum uppruna sem fluttist til Noregs, einkum nyrstu svæðanna, á 19. öld. Til þess að fullkomna tenginguna við Kvena er allur texti á flöskum brugghússins hvort tveggja á norsku og kvensku, tungumáli sem nú er nánast horfið. „Þetta er svona okkar framlag til að halda í kvenskuna,“ segir Didriksen um þessa kven-semi þeirra félaga, en auk þess noti þeir nánast eingöngu norskt malt við framleiðsluna.

„...öl var drukkit/sumt var ólagat/sjaldan hittir leiðr í líð,“ segir …
„...öl var drukkit/sumt var ólagat/sjaldan hittir leiðr í líð,“ segir í Hávamálum og má líklega segja að ölið sem hér sést í vinnslu í höndum Jankila sé að mestu ólagað á þessu stigi. Ljósmynd/Aðsend

Brugga í gömlu sláturhúsi

Þeir fjórmenningarnir stofnuðu brugghús sitt árið 2018 og vildu þannig leggja sitt lóð á vogarskálar atvinnulífs nyrsta fylkis Noregs sem reglulega er spáð í fréttum að eigi hreinlega eftir að leggjast nánast í eyði vegna fólksflótta. „Það er sama hér og hjá svo mörgum öðrum litlum bæjarfélögum í Noregi, við líðum fyrir fólksflótta. Okkar framlag var að reyna að lyfta aðeins undir iðnaðinn hérna ef svo má segja.“

Þeir lögðu því undir sig gamalt sláturhús og breyttu því í brugghús. „Við þóttumst góðir að vera búnir að koma einhverri framleiðslu í gang þar aftur,“ segir Didriksen glettinn. „Við framleiðum kannski ekki mikið í samanburði við stóru brugghúsin, en öll okkar framleiðsla er unnin í höndunum svo við þekkjum hverja einustu flösku persónulega,“ segir Stian Feldt Didriksen, brugghússtjóri Qvænbrygg í Vadsø, að lokum og hlær innilega.

mbl.is