Stúlkan fundin heil á húfi

Saksóknarinn Nicolas Heitz sést hér með mynd af stúlkunni, Miu …
Saksóknarinn Nicolas Heitz sést hér með mynd af stúlkunni, Miu Montemaggi. AFP

Átta ára gömul stúlka, sem hafði verið rænt í Frakklandi á þriðjudag, fannst í Sviss ásamt móður sinni um helgina. Stúlkan var við góða heilsu er hún fannst í yfirgefinni verksmiðju í landamærabænum Sainte-Croix að sögn franska saksóknarans François Pérain. Stúlkan, Mia Montemaggi, er komin í hendur ömmu sinnar að nýju.

Mia Montemaggi fannst í þessari yfirgefnu verksmiðju í Sainte-Croix en …
Mia Montemaggi fannst í þessari yfirgefnu verksmiðju í Sainte-Croix en þar hefur utangarðsfólk sem aðhyllist samsæriskenningar komið saman. AFP

Móðir hennar, Lola Montemaggi, er í haldi lögreglunnar í Sviss en að sögn lögreglu fékk hún fólk til þess að ræna stúlkunni af heimili móðurömmu stúlkunnar en henni var dæmt forræði yfir stúlkunni í janúar eftir að móðirin tjáði dómara við franskan fjölskyldurétt að hún vildi búa í jaðri samfélagsins, að hún vildi selja allar eigur sínar og búa í húsbíl en hún aðhyllist samsæriskenningar og hugmyndir í anda bandarísku samtakanna QAnon.

Á Facebook-síðu Montemaggi, sem er 28 ára gömul, kemur fram að hún telji að franska ríkinu sé stjórnað af satanískum barnaníðingum. Eins hefur hún ítrekað birt þar skilaboð sem sýna að hún er í sjálfsvígshugleiðingum.  

Lola Montemaggi.
Lola Montemaggi. AFP

Stúlkunni var rænt í Poulières, sem er í Vosges, af þremur mönnum sem komu henni til móðurinnar. Engu ofbeldi var beitt við barnsránið og samkvæmt frétt AFP-fréttastofunnar á Mia að hafa æpt þegar hún var tekin frá móður sinni. 

Í gær sagði Pérain að lögreglan hefði komist að því að mæðgurnar komu til Sviss sama dag og ránið fór fram og eyddu fyrstu nóttinni á hóteli í Est avayer-le-Lac, skammt frá frönsku landamærunum. Þaðan fóru þær til bæjarins Neuchâtel þar sem þær gistu næstu nótt en þaðan fóru þær í verksmiðjuna þar sem þær fundust en þar hefur hópur fólks sem aðhyllist samsæriskenningar komið sér fyrir.
Stúlkan fannst í Sainte-Croix þar sem félagar í samtökum í …
Stúlkan fannst í Sainte-Croix þar sem félagar í samtökum í anda QAnon hafa sest að. AFP

Fimm hafa verið handteknir í tenslum við barnsránið þar á meðal þremenningarnir sem eru sakaðir um að hafa rænt stúlkunni. Að sögn franska saksóknarans Nicolas Heitz beið einn í bílnum á meðan hinir tveir bönkuðu upp á hjá ömmunni og sögðust vera starfsmenn barnaverndar. Við leit á heimili eins þeirra í París fannst handrit texta sem átti að lesa fyrir ömmuna og smárúta, Citroën C15, er einnig fundin sem vitni hafa staðfest að barnsræningjarnir notuðu við ránið. 

Þrír þeirra sem eru í haldi lögreglu eru þekktir stjórnleysingjar, það er að þeir búa í jaðri samfélagsins og eru andstæðingar laga og reglna. Þeir eru sagðir tengjast samtökum sem eru tengd QAnon samkvæmt frétt BBC og Sunday Times. Franska leyniþjónustan hefur varað við uppgangi samtakanna í Frakklandi. 

Heitz segir að einn þeirra telji sig andófsmann í anda Arsène Lupin. Annar telur að hann hafi bjargað lífi barnsins þrátt fyrir að viðurkenna að kannski hafi móðir stúlkunnar ráðskast með sig. Þeir segja að beiðnin um barnsránið hafi borist í gegnum netið. 

Frétt France24

Le Parisien

Le Monde 

L'Express

mbl.is