Lyfjafyrirtækin dregin til ábyrgðar

AFP

Fjögur lyfjafyrirtæki, þar á meðal eigandi Actavis-Teva, voru dregin fyrir dóm í gær sökuð um að hafa ýtt undir ópíóíða-faraldurinn sem hefur dregið fjölmarga til dauða í Bandaríkjunum. Fyrirtækin eru sökuð um að hafa gert lítið úr áhættunni á því að ánetjast verkjalyfjunum með öflugu markaðsstarfi sínu.

Lyfjafyrirtækin Johnson & Johnson, Teva, Endo og Allergan eru sökuð um að hafa gert lítið úr hættunni af langtímanotkun ópíóíðaverkjalyfja til þess að geta selt meira magn lyfjanna. Málið er höfðað gegn lyfjafyrirtækjunum í nokkrum sýslum Kaliforníu og í Oakland. Farið er fram á milljarða bandaríkjadala í miskabætur. 

Teva keypti Actavis Generics, samheitalyfjahluta Allergan, árið 2016 og er Medis einnig í eigu Teva.

mbl.is/Valgarður Gíslason

Tæplega hálf milljón Bandaríkjamanna hefur látist af völdum ofskömmtunar ópíóíða, bæði þeirra sem fengnir eru með lyfseðli eða ólöglega, síðustu tvo áratugi. Um 50 þúsund létust vegna þeirra á árinu 2019.

Stefnendur í málinu eru Santa Clara, Los Angeles og Orange-sýsla sem og borgin Oakland en alls eru íbúar þeirra 15 milljónir talsins. Það eru 40% af íbúum Kaliforníu sem er fjölmennasta ríki Bandaríkjanna. Auk þess að krefjast skaðabóta fara yfirvöld fram á að gripið verði til aðgerða til að koma í veg fyrir að lyfjafyrirtæki geti stundað blekkjandi markaðsstarf í framtíðinni. 

„Á sama tíma og notkun ópíóíða hefur tekið gífurlegan toll af Kalforníu-ríki og íbúum þess hafa sakborningar innleyst gríðarlegan ágóða. Bara á árinu 2014 sköpuðu ópíóíðar 11 milljarða bandaríkjadala hagnað fyrir lyfjafyrirtækin,“ segir meðal annars í greinargerð sækjenda. 11 milljarðar dala samsvara 1.387 milljörðum íslenskra króna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert