Möguleg tengsl Janssen og blóðtappa

Bóluefnið Janssen.
Bóluefnið Janssen. AFP

Lyfjastofnun Evrópu (EMA) hefur fundið möguleg tengsl milli bóluefnisins Janssen og mjög sjaldgæfrar tegundar blóðtappa sem urðu til þess að yfirvöld í Evrópu og Bandaríkjunum gerðu hlé á bólusetningum við COVID-19 með bóluefninu í síðustu viku.

Lyfjastofnunin sagði í yfirlýsingu í dag að öryggisnefnd hennar hefði komist að þeirri niðurstöðu að bæta ætti viðvörun við upplýsingar um bóluefnið sem framleitt er af Johnson & Johnson en bætti þó við að ávinningur af bóluefninu væri meiri en áhætta þess.

Lyfjastofnunin rannsakaði átta alvarleg tilfelli blóðtappa, þar af eitt dauðsfall, sem áttu sér stað í Bandaríkjunum, þar sem meira en 7 milljónir hafa verið bólusettir með bóluefninu.  

Öll tilfellin komu fram hjá fólki yngri en 60 ára, meirihluti þeirra voru konur, og mynduðust blóðtapparnir innan þriggja vikna frá bólusetningu. Eins og í tilfelli AstraZeneca bóluefnisins birtust flestir blóðtapparnir í heila og kvið. Niðurstaðan var sú að tilfellin „ættu að vera skráð sem mjög sjaldgæfar aukaverkanir“ bóluefnisins.

„Heilbrigðisstarfsmenn og aðrir sem fá bóluefnið ættu að vera meðvitaðir um möguleika á mjög sjaldgæfum tilvikum blóðtappa innan þriggja vikna frá bólusetningu,“ sagði stofnunin.

Tilkynningin kemur í kjölfar þess að framkvæmdastjóri Evrópusambandsins, sem sér um bóluefnabirgðir sambandsins, sagðist vera fullviss um að 27 aðildarríki ESB myndu hafa næga skammta til að bólusetja að fullu 70% fullorðinna íbúa þeirra um miðjan júlí.

Johnson & Johnson stöðvuðu notkun á bóluefni sínu í Evrópu í síðustu viku og ráðlögðu stjórnvöldum að geyma skammtana þar til Lyfjastofnunin hefði gefið út leiðbeiningar um notkun þeirra.

Frétt af vef The Guardian.

mbl.is