Samsæriskennismiður meðal grunaðra

Rémy Daillet.
Rémy Daillet. AFP

Gefin hefur verið út alþjóðleg handtökuskipun á hendur áhrifamiklum samsæriskenningasmið í tengslum við barnsrán í Frakklandi. 

Litla stúlkan, Mia, fannst ásamt 28 ára gamalli móður sinni, Lola Montemaggi, á sunnudag og var það lögreglan í Sviss sem fann þær mæðgur í yfirgefinni verksmiðju þar í landi. Stúlkunni var rænt af heimili ömmu sinnar í Poulières í austurhluta Frakklands.

Fimm menn ásamt Montemaggi eru í haldi í tengslum við barnsránið en þrír þeirra þóttust vera starfsmenn barnaverndar þegar þeir komu á heimili ömmunnar og Miu fyrir viku.

Að sögn franskra saksóknara gekk samsærið undir nafninu „aðgerð Lima“ og höfðu barnsræningjarnir fengið talstöðvar, tjaldbúnað, falsaðar bílnúmeraplötur og 3 þúsund evrur til að fjármagna kostnað. 

Saksóknarar segja að aðstoðarmenn móðurinnar við barnsránið séu aðgerðasinnar gegn kerfinu sem telja að börn í umsjón barnaverndaryfirvalda hafi verið ranglega tekin af foreldrum sínum. 

Að loknum yfirheyrslum yfir þeim grunuðu sögðu þeir sem vinna að rannsókn málsins að mögulega hafi barnsræningjarnir fengið aðstoð frá Rémy Daillet-Wiedemann sem er góðkunningi frönsku lögreglunnar vegna öfgasinnaðra samsæriskenninga og popúlisma. Daillet sem er 54 ára gamall er fyrrverandi leiðtogi miðjuflokksins MoDem í Haute-Garonne en hann var rekinn úr flokknum árið 2010. 

Franço­is Pérain, ríkissaksóknari í Nancy.
Franço­is Pérain, ríkissaksóknari í Nancy. AFP

Le Parisien greinir frá því í dag að Daillet búi í Malasíu og hafi búið þar í nokkur ár. Hann er talinn helsti leiðtogi hreyfingar sem þeir grunuðu tilheyra, segir Franço­is Pérain, ríkissaksóknari í Nancy. Talið er að hann hafi leikið lykilhlutverkið í ráninu á Miu og veitt þeim sem sótti þær mæðgur til Neuchâtel upplýsingar þegar þau flúðu Frakkland. 

Samkvæmt frétt Le Parisien er Daillet talinn hafa staðið á bak við það þegar ökutæki var ekið á lögreglustöð í Dax í Suðvestur-Frakklandi í nóvember.

Síðasta sumar á hann að hafa búið til falsaðan aðgang á samfélagsmiðlum til að dásama skemmdarverk sem unnin voru á minningarreit um fórnarlömb helfararinnar í Oradour-sur-Glane þar sem illvirkjum nasista var hafnað. 

Móðir Miu missti forræðið yfir dóttur sinni og mátti hvorki hitta hana ein né tala við hana í síma. Hundruð lögreglumanna tóku þátt í leitinni sem lauk með umsátri í Sainte-Croix.

Mia kom heim til ömmu sinnar í gær en móðir hennar er enn í haldi lögreglu í Sviss á meðan beðið er framsalsheimildar. 

mbl.is