„Ég held ég hafi verið skotinn“

Bryggjan og gestahöfnin svokallaða í Tønsberg. Rúmlega þrítugur maður var …
Bryggjan og gestahöfnin svokallaða í Tønsberg. Rúmlega þrítugur maður var skotinn til bana þar í bænum í gærkvöldi í því sem lögregla telur uppgjör vegna gamalla mála í undirheimum bæjarins. Ljósmynd/Wikipedia.org/Helge Høifødt

Lögreglan í Tønsberg í Noregi, um 100 kílómetra suðvestur af Ósló, er enn litlu nær eftir að 33 ára gamall maður var skotinn til bana úti á götu, við Rema 1000-verslun í Kilen, upp úr klukkan 22 að norskum tíma í gærkvöldi, þriðjudagskvöld.

Maðurinn náði sjálfur að hringja í neyðarlínunna og hóf samtalið með orðunum „Ég held ég hafi verið skotinn,“ áður en hann hneig niður. Lögregluþjónar, sem komu fyrstir á vettvang, gripu til fyrstu hjálpar áður en fórnarlambið var flutt á sjúkrahúsið í bænum þar sem frekari tilraunir til að bjarga lífi mannsins báru ekki árangur og hann var úrskurðaður látinn klukkan 01:30 í nótt.

Vitni segja tvær bifreiðar hafa verið á staðnum og hafi annarri þeirra verið ekið rösklega á brott eftir að mörgum skotum heyrðist hleypt af. Athygli lögreglu hefur meðal annars beinst að upptöku öryggismyndavélar inni í verslunarmiðstöð á vettvangi sem staðsett er fyrir utan aðstöðu sólbaðstofunnar Brun & Blid.

Harðnað á dalnum í undirheimum

Á upptökunni sést maðurinn ganga að sólbaðstofunni ásamt konu sem er með honum í för. Honum verður svo litið út um gluggann og virðist af upptökunni sem honum bregði nokkuð við. Hann hleypur svo út úr húsinu og heldur fyrst til vinstri áður en hann snarsnýr sér við og hleypur í gagnstæða átt.

Hinn látni hefur hlotið refsidóma, síðast árið 2013, meðal annars fyrir auðgunar- og fíkniefnabrot, og telur lögregla árásina á hann að öllum líkindum hafa tengst gömlu óuppgerðu máli í undirheimum Tønsberg þar sem nokkuð hefur harðnað á dalnum upp á síðkastið, segir lögregla og nefnir sem dæmi að nýlega hafi 15 ára gamall drengur verið tekinn þar með níu millimetra skammbyssu í fórum sínum.

Bifreið í ljósum logum

Ekki löngu eftir skotárásina barst lögreglu tilkynning um fólksbifreið í ljósum logum í bæjarhlutanum Sem og hafa fjórir menn verið handteknir í tengslum við það mál. Kveðst lögregla rannsaka bílbrunann og skotárásina banvænu sem tvö óskyld mál þótt hún geti ekki útilokað tengsl þar á milli.

Fólk dreif að vettvangi í dag þar sem það lagði blóm á árásarstaðinn og kveikti þar á kertum. Harmi slegnir vinir hins látna, sem meðal annars VG og Dagbladet ræddu við, segja hann hafa verið hvers manns hugljúfa, haldið sig töluvert út af fyrir sig og lagt mikla rækt við hunda sína auk þess að stunda ýmsa útivist.

NRK

VG

Dagbladet

TV2

mbl.is