Skrópaði í vinnunni í 15 ár á fullum launum

Lögregluyfirvöld á Ítalíu keppast nú við að sporna gegn álíka …
Lögregluyfirvöld á Ítalíu keppast nú við að sporna gegn álíka fjársvikum innan opinbera geirans þar í landi. AFP

Heilbrigðisstarfsmaður á Ítalíu hefur verið sakaður um að skrópa í vinnunni, á fullum launum, í 15 ár. Maðurinn er sagði hafa hætt að mæta í vinnuna á Giaccio-sjúkrahúsið í borginni Catanzaro á Suður-Ítalíu árið 2005. Hann á nú yfir höfði sér ákæru fyrir fjársvik, kúgun og brot í starfi, að því er segir á vef BBC.

Maðurinn er sagður hafa kúgað yfirmann sinn á sjúkrahúsinu svo hún kæmi ekki upp um hann. Sá yfirmaður settist loks í helgan stein og þeim sem tók við hefur láðst að taka eftir skrópandi starfsmanninum í bókhaldi sjúkrahússins, að því er lögreglan í Cantanzaro segir.

Hann fékk greiddar um 538 þúsund evrur á þeim tíma sem hann skrópaði í vinnunni, andvirði rúmlega 81 milljónar króna. Sex yfirmenn á sjúkrahúsinu eru einnig til rannsóknar vegna málsins.

Handtökur sjömenninganna eru hluti af átaki lögreglu til að sporna gegn álíka skrópi og öðrum svikum innan opinbera kerfisins á Ítalíu.

mbl.is