Kona sendiherra réðst á búðareigendur

Konan réðst að búðareigendum eftir að hafa verið vænd um …
Konan réðst að búðareigendum eftir að hafa verið vænd um þjófnað. Mynd úr safni. AFP

Sendiherra Belgíu í Suður-Kóreu, Peter Lescouhier, baðst í dag afsökunar eftir að myndbandsupptöku var lekið, sem sýndi eiginkonu hans veitast að eigendum hornbúðar með ofbeldi. Hún hafði verið vænd um þjófnað af búðareigendum eftir að hafa mátað föt í búðinni og gert sig líklega til að yfirgefa verslunina án þess að borga, enn í fötunum.

Mun liðsinna lögreglu

Á öryggismyndavél sést hvernig Xiang Xueqiu grípur í hönd annars búðareigendanna og ber hana í hausinn áður en hún veitir svo öðrum búðareiganda kinnhest, sem ætlaði að stöðva hana. Myndbandið vakti mikla reiði í Suður-Kóreu enda glæpatíðni þar almennt lág og tilhneiging fólks til að fara að lögum afar rík.

Sem eiginkona sendiherra nýtur Xueqiu diplómatískrar friðhelgi í Suður-Kóreu en í tilkynningu frá belgíska sendiráðinu segir að hún muni engu að síður aðstoða lögreglu við rannsókn málsins. Það verður þó ekki fyrr en hún útskrifast af sjúkrahúsi, en hún fékk hjartaslag á dögunum og er enn að ná sér, eins og segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert