Lífstíðarfangelsi fyrir misheppnuð hryðjuverk í New York

Akayed Ullah.
Akayed Ullah. CBS

Akayed Ullah, 31 árs karlmaður, hefur verið dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir misheppnaða hryðjuverkatilraun á Time Square-lestarstöðinni í New York í desember 2017. Maðurinn sprengdi rörasprengju sem hann hafði komið fyrir innan klæða.

Hann hafði sjálfur útbúið sprengjuna og notað til þess efni frá iðnaðarsvæði þar sem hann vann. Sprengjan sprakk þó ekki eins og til stóð og enginn fórst í árásinni en fjórir slösuðust, þar á meðal árásarmaðurinn.

Hann hélt því síðar fram að hann hefði aðeins ætlað að drepa sjálfan sig og þvertók fyrir að Ríki íslams stæði að baki árásinni. Saksóknarar héldu því fram að þótt Ullah hefði verið einn á ferð hefði hann verið undir áhrifum frá samtökunum og að hann hefði verið reiður út í Donald Trump, þáverandi forseta, vegna utanríkisstefnu hans í Mið-Austurlöndum.

Ullah var fundinn sekur í nóvember 2018, bæði fyrir sprenginuna og að hafa aðstoðað erlend hryðjuverkasamtök, Ríki íslams. Það var þó ekki fyrr en í dag sem lengd fangelsisvistar var ákveðin, lífstíðardómur.

Árásin var fyrsta tilraun til sjálfsmorðsárásar í New York síðan 11. september 2001.

mbl.is